Hluta­bréfa­verð fjölmiðla- og fjar­skipta­félagsins Sýnar hefur hækkað rúm 4,4% í við­skiptum dagsins og stendur gengið í 33,4 krónum á hlut. Sam­svarar það um 37% hækkun síðastliðinn mánuð en gengi félagsins hefur verið á miklu skriði undan­farnar vikur.

Sýn er nú meðal þeirra 11 skráðra félaga sem hafa hækkað á árinu en gengi bréfanna er nú tæplega 4% hærra en í árs­byrjun.

Tölu­verðar áskoranir hafa verið í rekstri Sýnar en í febrúar­mánuði hafði gengi félagsins lækkað um ríf­lega helming á einu ári en tap félagsins fyrir virðis­rýrnun nam 357 milljónum í fyrra.

Þann 12. júní síðastliðinn til­kynnti Sýn að Voda­fone og allar sjón­varps­stöðvar Stöðvar 2 hefðu sam­einast undir merkjum Sýnar.

Í byrjun þessa mánaðar til­kynnti félagið um að frá og með 1. ágúst verði línu­lega sjón­varps­stöðin Sýn, áður Stöð 2, í opinni dag­skrá fyrir alla lands­menn, en frá og með þeim tíma mun allt efni fyrst birtast á streymis­veitunni Sýn+.

Þá styttist óðum í að Sýn fari að aug­lýsa af fullum krafti áskrift að Sýn Sport í til­efni af því að næsta tíma­bil enska boltans hefst 15. ágúst næst­komandi. Fyrir rúmu ári tryggði Sýn sér sýningarrétt á enska boltanum frá tíma­bilinu 2025/2026 til og með tíma­bilinu 2027/2028.

Sýn bindir miklar vonir við að endur­koma Enska boltans leiði til tölu­verðrar fjölgunar við­skipta­vina. Talið er að Sýn greiði á fjórða milljarð króna fyrir sýningarrétt á Enska boltanum í þrjú ár.

Sýn til­kynnti í byrjun mánaðar að pakkaá­skrift að streymis­veitunni Sýn+ og öllum sportrásum muni kosta 11.990 krónur á mánuði.

Sýn tapaði 344 milljónum króna eftir skatta á fyrsta árs­fjórðungi, saman­borið við 153 milljóna tap á sama tíma­bili í fyrra, en félagið birti árs­hluta­upp­gjör í byrjun maí.

Rekstrar­tekjur sam­stæðunnar á fyrsta fjórðungi drógust saman um 2,7% milli ára og námu 5.220 milljónum króna.

Félagið greindi þó frá jákvæðri þróun í kjarna­starf­semi fjar­skipta, þar sem bæði tekjur og fjöldi við­skipta­vina aukast á milli árs­fjórðunga. Þá hafa tekjur af Stöð 2+ einnig aukist og fjöldi áskrif­enda hefur aldrei verið meiri.

Eignir Sýnar voru bók­færðar á 30,8 milljarða króna í lok mars og eigið fé var um 8,3 milljarðar króna. Sýn segir að fjár­hags­staða félagsins hafi verið styrkt á fjórðungnum þegar gengið var frá fram­lengingu á lána­línum félagsins.