„Það er ánægjulegt að segja frá því að vinnu við skráningu hefur nú þegar verið ýtt úr vör,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, í bréfi sem hann sendi hluthöfum félagsins í gær.
„Á aðalfundi félagsins í apríl kom fram í máli mínu að tekið hefði verið til skoðunar að skrá Stoðir á aðalmarkað Kauphallarinnar,“ segir Jón. „Skráning í kauphöll krefst verulegrar undirbúningsvinnu en hvorki liggur fyrir endanleg ákvörðun um skráningu né tímasetningu skráningar. Engu að síður viljum við vera tilbúin að nýta þau tækifæri sem kunna að myndast í tengslum við skráningu félagsins en með skráningu mun verða auðveldara að eiga viðskipti með félagið auk þess sem einfaldara væri að nýta hlutabréf Stoða sem gagngjald í stærri viðskiptum.
Jón segir að komi til skráningar verði jafnframt markmið að styrkja fjárfestingagetu félagsins enn frekar en vilji stjórnenda standi til þess að bæta við 1-2 nýjum erlendum fjárfestingum í eignasafnið á næstu misserum ásamt því að geta nýtt þau tækifæri sem upp kunna að koma innanlands. Hann segir að hluthafar verði upplýstir um framgang þessarar vinnu eftir því sem henni miði áfram.
„Ég tel að fjárfesting í Stoðum eigi að vera áhugaverð viðbót í eignasafn fjölmargra einstaklinga og fagfjárfesta en með fjárfestingu í félaginu eignast hluthafar óbeinan eignarhlut í spennandi skráðum og óskráðum fyrirtækjum,“ segir Jón.
„Ávöxtun hluthafa Stoða frá því fjárfestingastarfsemi hófst að nýju árið 2018 hefur verið mjög góð og umtalsvert betri en helstu vísitölur bæði hérlendis og erlendis.“
Jón segist ánægður með rekstur lykileigna félagsins það sem af sé ári og að útlitið sé bjart.
„Það má vera að verðbréfamarkaðir verði seinni að taka við sér en reikna mátti með þar sem allt útlit er fyrir að Seðlabankinn muni lækka vexti seinna og hægar en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Það hefur þó engin áhrif á gæði okkar eigna. Þar að auki er margt í gangi hjá öllum okkar félögum og leyfi ég mér að fullyrða að aðkoma Stoða sem áhrifafjárfestis hefur þar mikil áhrif og býr til aukin verðmæti fyrir alla hluthafa okkar félaga.“
Að sögn Jóns munu Stoðir halda áfram að horfa til tækifæra utan Íslands þó líklegt sé að innlendar eignir verði áfram í meirihluta næstu misserin.
„Undanfarin ár höfum við skoðað fjölmörg erlend fjárfestingartækifæri en það var ekki fyrr en í upphafi þessa árs að við fundum tvö fyrirtæki sem við gerðum tilboð í. Því miður gengu hvorug kaupin eftir. Áfram eru til skoðunar önnur erlend verkefni og ég vonast til að einhver skref verði stigin í þeim efnum á næstu 12 mánuðum eða svo.“