Greiningarfyrirtækið AKKUR segir undirliggjandi rekstur Íslandsbanka vera mun sterkari en áður var talið og bendir á að bæði vaxtatekjur og þóknanatekjur hafi farið verulega fram úr væntingum á öðrum ársfjórðungi.
Íslandsbanki birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung 2025 eftir lokun markaða í gær en samkvæmt Akkur er afkoma töluvert umfram væntingar, bæði í tekjum og hagnaði að frádregnum kostnaði.
Allir helstu tekjuliðir bankans voru umfram spár greiningarfyrirtækisins og þá sérstaklega kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxtatekjur og þóknanatekjur, sem voru tæplega 6% yfir væntingum.
Hagnaður að frádregnum rekstrarkostnaði var um 13% yfir spáakkur og var þetta jafnframt sterkasti ársfjórðungur bankans frá upphafi þegar litið er til undirliggjandi hagnaðar.
Vaxtamunur og útlánavöxtur voru yfir væntingum og skapaði það sögulegar vaxtatekjur á fjórðungnum. Greiningarfyrirtækið bendir á að þetta gerist þrátt fyrir áhyggjur markaðarins um minnkandi vaxtamun vegna lækkandi verðbólgu.
Þóknanatekjur, sem að mestu komu frá fjárfestingarbankastarfsemi, voru einnig töluvert yfir væntingum og vekur það athygli greiningaraðila að þessi tekjulind virðist í vexti.
Rekstrarkostnaður var um 270 milljónir króna undir væntingum og launakostnaður hækkaði um 6,8% milli ára, á meðan annar kostnaður lækkaði um 2,3% miðað við sama tímabil í fyrra (leiðrétt fyrir sekt).
Heildarrekstrarkostnaður jókst aðeins um 3,1% milli ára, sem telst hóflegt í ljósi aðstæðna.
Eigið fé og endurkaup styðja við gengi
Íslandsbanki situr á um 40 milljörðum króna í umfram eigið fé, eða sem nemur rúmlega 17% af markaðsvirði bankans. Núverandi endurkaupaáætlun nær til allt að 15 milljarða, eða rúmlega 6% af markaðsvirði bankans, og samkvæmt Akkur ætti þetta að styðja við áframhaldandi þróun hlutabréfaverðs.
Það ætti að vera jákvætt fyrir þá Íslendinga sem tóku þátt í útboði ríkisins en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur almenningur ákveðið að halda í bréfin sín.
Ein neikvæð niðurstaða í greiningunni var að virkt skatthlutfall bankans var um 30%, sem er yfir spám.
Þetta skýrist af óhagstæðri samsetningu hagnaðar út frá skatthagrænu sjónarmiði. AKKUR telur þó að áhrif þessa muni jafnast út yfir lengri tíma og leggur ekki mikla áherslu á þann lið til skemmri tíma.
Miðað við dagslokagengi í gær er markaðsvirði Íslandsbanka 236 milljarðar króna, að teknu tilliti til eigin bréfa.
Það jafngildir 9,2x hagnaði síðustu 12 mánaða og 9,5x hagnaði ársins 2025 miðað við núverandi spá AKKUR.
P/B hlutfallið er 1,05x. Í ljósi þess að uppgjör ársins hingað til hefur verið umfram væntingar eru „miklar líkur“ á að spá AKKUR fyrir árið í heild verði hækkuð.