Bandarískir hluta­bréfa­markaðir hafa verið í stöðugri hækkun síðustu mánuði þrátt fyrir dökkar efna­hags­spár, hækkandi tolla og versnandi af­komu­horfur fyrir­tækja.

Að sögn Wall Street Journal virðist enginn eiga ein­faldar eða sann­færandi skýringar á þessari þróun og viður­kenna margir sérfræðingar um þessar mundir að markaðurinn hegði sér gjarnan á órökrænan hátt til skamms tíma.

Árið 2025 hófst með bjartsýni á markaði þar sem svo­kölluð „Trump-við­skipti“ (e. Trump tra­de) ýttu undir væntingar um at­vinnu­væna stefnu.

En fljót­lega fóru bréf að lækka og stefndi um tíð á bjarnar­markað eftir að nýir tollar voru settir á helstu við­skiptalönd Bandaríkjanna, þar á meðal Evrópu­sam­bandið og Japan.

Þótt hluta þeirra tolla hafi síðar verið frestað eru þeir tollar sem í gildi eru þeir hæstu frá fjórða ára­tug síðustu aldar.

Sam­kvæmt nýrri könnun WSJ telja hag­fræðingar 33% líkur á sam­drætti í Bandaríkjunum innan árs, saman­borið við 22% í byrjun árs. Spár um hagnað fyrir­tækja í S&P 500 hafa lækkað um 3% síðan í janúar.

S&P 500-vísi­talan hefur samt sem áður hækkað um 7% á árinu og 27% frá lægsta punkti í apríl, sem telst ein mesta hækkun sögunnar á jafn stuttum tíma.

Álit sér­fræðinga sveiflast með vindáttinni

WSJ nefnir David Kostin hjá Gold­man Sachs sem dæmi um hvernig álit á markaðnum hefur sveiflast.

Hann hóf árið með spá um 6.500 punkta loka­gildi fyrir S&P 500, lækkaði hana síðan í 6.200 og svo 5.700 í mars þegar hræðsla um sam­drátt jókst. Nú hefur hann aftur hækkað spána aftur, síðast í 6.600.

Þessir hröðu viðsnúningar endur­spegla það sem margir fjár­festar þekkja: Skammtíma­spár eru óstöðugar og oft rangar.

Fjölmiðlar og markaðs­ráðgjafar reyna gjarnan að finna út­skýringar á sveiflum, jafn­vel þegar ekkert liggur bein­línis fyrir.

Aftur­hvarf til kímni: „Enginn veit neitt“

The Wall Street Journal rifjar uppgaman­sama háðs­frétt frá The We­ekly Standard árið 1998, sem hófst með setningunni:

„Markaðurinn tók kipp í morgun af ástæðum sem enginn skilur og enginn sá fyrir.“

Þótt til­efnið hafi verið hæðni þá endur­speglar það stöðuna árið 2025.

Screenshot 2025-07-22 125744
Screenshot 2025-07-22 125744

Markaðir stíga upp í and­stöðu við gögn, spár og skyn­semi og fjár­festar, sér­fræðingar og fjölmiðlar leita með öllu til­tæku að skýringum, jafn­vel þar sem engin er til.