Úrvalsvísitalan lækkaði þriðja viðskiptadaginn í röð og hefur nú alls lækkað um 16% í ár. Til samanburðar hefur bandaríska S&P 500 vísitalan lækkað um 13% og Stoxx Europe 600 vísitalan um 15%.
Icelandair leiddi lækkanir á íslenska hlutabréfamarkaðnum annan daginn í röð en gengi félagsins féll um 8% í dag og stendur nú í 1,50 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur nú fallið um þriðjung á þremur vikum. Gengi Play hefur fallið um tæp 22% á sama tíma og stendur nú í 20,1 krónu á hlut.
Eldsneytisverð hefur hækkað verulega frá því að rússneski herinn réðst inn í Úkraínu þann 24. febrúar. Verð á Brent olíu hefur hækkað um meira en fjórðung á þessum tíma og er komið yfir 120 dali á tunnu, samkvæmt Reuters.
Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka eða um 1,9 milljarðar króna er gengi félagsins féll um 4,6%. Gengi Kviku hefur nú fallið um 23% frá byrjun árs og stendur í 20,6 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Arion féll einnig um 3,1% og nemur 170 krónum. Gengi Íslandsbanka hækkaði lítillega í 827 milljóna veltu.
Hlutabréfaverð Marel lækkaði um 2% í dag og er komið niður í 678 krónur á hlut. Gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan í október 2020. Hlutabréf Iceland Seafood, Origo og Símans féllu einnig öll um meira en 2% í dag.