Í umsögn til forsætisráðuneytisins um áform ríkisstjórnarinnar um 10 ára atvinnustefnu segir Samkeppniseftirlitið að stjórnvöld hafi almennt ekki nægar upplýsingar til að velja „sigurvegara“, þ.e. tilteknar atvinnugreinar eða fyrirtæki sem eigi að njóta sértæks stuðnings.
Slík nálgun geti leitt til mistaka í úthlutun, bjögunar á mörkuðum og röskunar á samkeppni. Eftirlitið leggur í staðinn áherslu á að virk samkeppni sé grunnforsenda árangursríkrar atvinnustefnu – til að auka framleiðni, verðmætasköpun og sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma.
Í umsögninni er hvatt til þess að samkeppnismat verði lögfest sem fastur liður í allri stefnumótun, við undirbúning laga og reglugerða og við endurskoðun regluramma.
Jafnframt er mælt með því að stjórnvöld forðist sértækan stuðning sem veiti tilteknum aðilum forskot, tryggi jafnræði og opna markaði fyrir nýliða og nýti opinber innkaup markvisst til að fá meira fyrir skattféð, örva virka samkeppni og styðja nýsköpun.
Samkeppniseftirlitið styður sig við leiðbeiningar OECD um svonefnda „samkeppnisvæna atvinnustefnu“ frá árinu 2024, þar sem lögð eru til viðmið við hönnun aðgerða.
Þar segir að ráðast skuli fyrst gegn raunverulegum markaðsbrestum með úrræðum sem draga sem minnst úr samkeppni, greina fyrir fram mögulega röskun markaða, viðhalda samkeppnishlutleysi gagnvart öllum aðilum og afmarka ríkisaðstoð í tíma með skýrum útgönguleiðum.
Eftirlitið varar um leið við áhættu sem rannsóknir hafa sýnt fram á: sterkir hagsmunaaðilar geti haft óhófleg áhrif á stefnumótun, umfangsmiklir styrkir til rannsókna og þróunar geti dregið úr hvötum einkaaðila og að beinn stuðningur geti reynst óþarfur ef fjárfesting hefði hvort eð er orðið („windfall“).
Í umsögninni er einnig vísað til áströlsku „Hilmer“-umbótanna á tíunda áratugnum, þar sem víðtæk endurskoðun samkeppnisumgjarðar og opnun markaða leiddi til varanlegrar aukningar í landsframleiðslu og lægri verðs á lykilmarköðum.
Eftirlitið telur að lærdómur þaðan styðji við áherslur um að byggja stefnuna á meginreglum um virka samkeppni fremur en sértækum undanþágum.
Að lokum hvetur Samkeppniseftirlitið til stórbættrar umgjarðar um opinber innkaup.
Innkaup ríkis og sveitarfélaga nemi hundruðum milljarða króna árlega og með markvissari gagnasöfnun, faglegri útboðshönnun og virkari eftirfylgni megi ná verulegum sparnaði og auka gæði, um leið og dregið sé úr hættu á samráði bjóðenda.
Í umsögninni segir að ef atvinnustefna á að ná markmiðum sínum um fleiri vel launuð störf og aukna verðmætasköpun þarf hún að vinna með ekki gegn samkeppni. Stjórnvöld eigi að setja skýran, hlutlausan og fyrirsjáanlegan ramma fyrir allt atvinnulíf.