Í um­sögn til for­sætis­ráðu­neytisins um áform ríkis­stjórnarinnar um 10 ára at­vinnu­stefnu segir Sam­keppnis­eftir­litið að stjórn­völd hafi al­mennt ekki nægar upp­lýsingar til að velja „sigur­vegara“, þ.e. til­teknar at­vinnu­greinar eða fyrir­tæki sem eigi að njóta sértæks stuðnings.

Slík nálgun geti leitt til mis­taka í út­hlutun, bjögunar á mörkuðum og röskunar á sam­keppni. Eftir­litið leggur í staðinn áherslu á að virk sam­keppni sé grunn­for­senda árangurs­ríkrar at­vinnu­stefnu – til að auka fram­leiðni, verðmæta­sköpun og sjálf­bæran hag­vöxt til lengri tíma.

Í um­sögninni er hvatt til þess að sam­keppnis­mat verði lög­fest sem fastur liður í allri stefnumótun, við undir­búning laga og reglu­gerða og við endur­skoðun regluramma.

Jafn­framt er mælt með því að stjórn­völd forðist sértækan stuðning sem veiti til­teknum aðilum for­skot, tryggi jafn­ræði og opna markaði fyrir nýliða og nýti opin­ber inn­kaup mark­visst til að fá meira fyrir skatt­féð, örva virka sam­keppni og styðja nýsköpun.

Sam­keppnis­eftir­litið styður sig við leiðbeiningar OECD um svo­nefnda „sam­keppnis­væna at­vinnu­stefnu“ frá árinu 2024, þar sem lögð eru til viðmið við hönnun að­gerða.

Þar segir að ráðast skuli fyrst gegn raun­veru­legum markaðs­brestum með úrræðum sem draga sem minnst úr sam­keppni, greina fyrir fram mögu­lega röskun markaða, viðhalda sam­keppnis­hlut­leysi gagn­vart öllum aðilum og af­marka ríkisað­stoð í tíma með skýrum út­göngu­leiðum.

Eftir­litið varar um leið við áhættu sem rannsóknir hafa sýnt fram á: sterkir hags­muna­aðilar geti haft óhóf­leg áhrif á stefnumótun, um­fangs­miklir styrkir til rannsókna og þróunar geti dregið úr hvötum einka­aðila og að beinn stuðningur geti reynst óþarfur ef fjár­festing hefði hvort eð er orðið („wind­fall“).

Í um­sögninni er einnig vísað til áströlsku „Hil­mer“-um­bótanna á tíunda ára­tugnum, þar sem víðtæk endur­skoðun sam­keppnisum­gjarðar og opnun markaða leiddi til varan­legrar aukningar í lands­fram­leiðslu og lægri verðs á lykil­marköðum.

Eftir­litið telur að lær­dómur þaðan styðji við áherslur um að byggja stefnuna á megin­reglum um virka sam­keppni fremur en sértækum undanþágum.

Að lokum hvetur Sam­keppnis­eftir­litið til stór­bættrar um­gjarðar um opin­ber inn­kaup.

Inn­kaup ríkis og sveitarfélaga nemi hundruðum milljarða króna ár­lega og með mark­vissari gagnasöfnun, fag­legri út­boðs­hönnun og virkari eftir­fylgni megi ná veru­legum sparnaði og auka gæði, um leið og dregið sé úr hættu á samráði bjóðenda.

Í umsögninni segir að ef at­vinnu­stefna á að ná mark­miðum sínum um fleiri vel launuð störf og aukna verðmæta­sköpun þarf hún að vinna með ekki gegn sam­keppni. Stjórn­völd eigi að setja skýran, hlut­lausan og fyrir­sjáan­legan ramma fyrir allt at­vinnulíf.