Pólitískur þrýstingur á seðlabanka er að aukast samhliða stóraukinni skuldsetningu ríkja og hættan á svokölluðu „fjárlagalýðskrumi“ (e. fiscal populism) vofir yfir, að mati Andy Haldane, fyrrverandi aðalhagfræðings Seðlabanka Englands.
Í nýjum pistli í Financial Times varar hann við þróun þar sem peningastefna er beygð undir þarfir ríkissjóðs, fremur en að þjóna stöðugleikamarkmiðum.
„Þegar ríkisfjármál ráða ferðinni og peningastefna er nýtt til að lækka vaxtakostnað ríkisins eða fjármagna hallarekstur hættir seðlabönkum til að verða eins konar tæki í höndum stjórnvalda í stað sjálfstæðra vörslumanna verðstöðugleika,“ skrifar Haldane.
Hækkandi skuldir og pólitískar freistingar
Hann bendir á að öll G7-ríkin búi nú við fjárlagahalla sem nemur að meðaltali 6% af landsframleiðslu og heildarskuldir þeirra séu komnar yfir 100% af VLF, mesta hlutfall síðan á stríðsárunum.
Auknar útgjaldakröfur vegna öldrunar þjóðar, loftslagsbreytinga og nýrra pólitískra loforða ýta enn frekar undir hallarekstur.
„Við erum að færast í átt að aðstæðum þar sem stjórnvöld beita peningastefnu til að þóknast kjósendum frekar en að halda verðbólgu í skefjum. Það er kjarni fjárlagalýðskrumsins,“ skrifar Haldane.
Seðlabankar eru þegar farnir að hlaupa undir bagga
Haldane bendir á að seðlabankar hafi þegar gegnt hlutverki ríkisfjármögnunar, einkum með svonefndri magnbundinni íhlutun (quantitative easing, QE). Slíkar aðgerðir voru réttlætanlegar eftir fjármálakreppuna til að koma í veg fyrir verðhjöðnun, en síðari lotur QE, sérstaklega í kjölfar faraldursins, hafi fyrst og fremst verið til þess fallnar að róa skuldabréfamarkaði.
Seðlabankar í Bretlandi og Japan héldu um tíma á nær helmingi ríkisskuldabréfa og sambærileg þróun átti sér stað í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu.
Nú sé hins vegar verið að færa sig inn í beina íhlutun. Donald Trump hefur t.d. lýst því yfir að hver 1 prósentu lækkun á vöxtum myndi spara ríkissjóði 360 milljarða dollara árlega meðan hann þrýstir á seðlabankann að lækka vexti með hagsmuni ríkisins í huga.
Slíkar aðgerðir eru dæmi um það sem Haldane kallar „front-door fiscal dominance“.
Þessi hætta eykst með vaxandi hlutfalli skammtímaskulda ríkja.
Í Bandaríkjunum eru nú tveir þriðju ríkisskulda með undir fimm ára líftíma. Sambærileg þróun sést í mörgum OECD-ríkjum, þar sem stór hluti skulda þarf að endurfjármagna innan þriggja ára.
Lýðskrum á kostnað sjálfstæðis
Haldane segir að í slíkum aðstæðum skapist hvati fyrir stjórnvöld til að þrýsta á seðlabanka um að lækka vexti, svo að endurfjármögnun skulda verði ódýrari.
Þannig myndist vítahringur: lægri vextir ýta undir hærri langtímavexti, sem aftur leiða til styttri skuldabréfa og meiri þrýstings á seðlabankann.
Hann bendir á að þessi þróun sé kunnugleg frá þróunarlöndum þar sem sjálfstæði seðlabanka er veikt og skuldabréfamarkaðir vanþróaðir – og nefnir sérstaklega Tyrkland sem dæmi.
Þrátt fyrir að flest þróuð ríki bjóði upp á lagalegar varnir gegn pólitískum afskiptum af peningastefnu þá hafi markaðir í raun sýnt að þeir hafa takmarkaða þolinmæði fyrir slíku lýðskrumi.
Uppgangur langtímavaxta í Bandaríkjunum undanfarið endurspegli ugg markaðarins og hafi dregið fram hálfvolgar afturköllunar frá Trump sjálfum.
„Ef stærsta hagkerfi heims og voldugasti seðlabanki heims eru ekki ónæm fyrir fjárlagalýðskrumi, þá er enginn það,“ segir Haldane að lokum.