Þrátt fyrir að enn sé opið fyrir olíu- og gasviðskipti við Rússland hafa viðskiptaþvinganir haft mikil áhrif á hrávörumarkaði, meðal annars vegna minni eftirspurnar eftir rússneskum vörum.

Að sögn Brynjólfs Stefánssonar, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum, getur verðhækkun á jarðgasi haft afleidd áhrif á matvöru- og kornmarkað þar sem jarðgas er notað í áburð. Áburðarverð hefur nú þegar hækkað um tugi prósenta og gæti það haft mikil áhrif á matvælaframleiðslu víða um heim. Áhrifin munu einungis aukast í ljósi þess að bæði Rússland og Úkraína eru með stærri kornframleiðendum heims.

Þá hefur verð á málmunum áli og nikkel ekki verið hærra í 11 ár vegna viðbragða við hugsanlegum framboðstruflunum frá Rússlandi, en skipafélög sem standa að baki helmingi gámaflutninga heims hafa hætt flutningum til og frá landinu. Málmbirgðir eru að sama skapi í lágmarki auk þess sem evrópsk álver hafa dregið umtalsvert úr framleiðslu sinni vegna hækkandi raforkuverðs.

Verðbólga er nú þegar sú hæsta í áratugi víðs vegar um heim og spenna á hrávörumarkaði og vandræði í aðfangakeðjunni munu bæta enn frekar við þann vanda. Því gætu seðlabankar heimsins þurft að grípa til enn snarpari vaxtahækkana, sem myndu þá að öllum líkindum valda lækkunum á hlutabréfamörkuðum. Ljóst er að seðlabankar eru í þeirri erfiðu stöðu þegar kemur að vaxtaákvörðunum að þurfa bæði að glíma við verðbólgu, sem myndi alla jafna leiða til vaxtahækkana, og hugsanlega kólnun hagkerfa sinna vegna viðskiptaþvingana sem myndi alla jafna kalla á örvun í formi vaxtalækkana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .