Frönsk stjórnvöld vinna nú að því að semja um að kampavín og önnur vín verði undanþegin tollum Bandaríkjanna. Áætlað er að nýir 15% tollar á innfluttar vörur frá aðildarríkjum ESB taki gildi á föstudaginn.
Í umfjöllun Financial Times segir að viðskiptasamningur Bandaríkjanna og ESB sem tilkynnt var um á sunnudaginn sé talinn óljós í Brussel og París um hvað vörur eru undanskildar hinum umsamda 15% tolli sem lagður verður á mestallan innflutning frá Evrópu.
Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið það út að það hafi tryggt undanþágu fyrir flugvélar og tengda íhluti, ákveðnar efnavörur og lyfjaiðnaðinn. Minnisblöð framkvæmdastjórnarinnar og Hvíta hússins stangast hins vegar á hvað tolla á stál og lyfjaiðnaðinn varðar. Hvorugt minnisblað nefnir áfengar vörur sérstaklega.
Framkvæmdastjórnin segir að endanlegt samkomulag verði betur útlistað í sameiginlegri yfirlýsingu, sem verður líklega birt á föstudaginn þegar búist er við að Donald Trump undirriti forsetatilskipanir tengdum nýju tollunum.
Embættismenn í Brussel halda því fram að viðræður við bandarísk stjórnvöld um tiltekin mál er varða viðskiptasamninginn, þar á meðal áfenga drykki, standi enn yfir. Fulltrúar bandarísku ríkisstjórnarinnar hafa hins vegar lýst því yfir að það verði ekki veittar neinar undanþágur fyrir áfanga drykki og vín, þar á meðal kampavín.
Fjármálaráðherra Frakkalands, Éric Lombard, sagði við franska dagblaðið Liberation í dag að undanþága sem hafi verið veitt til flugiðnaðarins ætti einnig að gilda um áfenga drykki. Aðstoðarviðskiptaráðherra Frakklands gaf til kynna að Frakkland væri að nálgast samkomulag undanþágu fyrir koníak og annað áfengi. Fulltrúi franska fjármálaráðuneytisins sagði stjórnvöld sækjast eftir slíkri undanþágu frá tollunum fyrir allar áfengar vörur.
Frakkland er stærsta útflutningsþjóð áfengis innan Evrópu en þjóðin flutti út áfenga drykki að andvirði 12 milljarðar dala í fyrra. Tæplega þriðjungur af útflutningi Frakklands á áfengi fór til Bandaríkjanna.
Ítalía, næst stærsta útflytjandi áfengis innan ESB, hefur einnig talað fyrir undanþágu fyrir áfengi.
Bernard Arnault, forstjóri og stjórnarformaður LVMH, sem á m.a. Moët Hennessy, hefur reynt að nýta tengsl sín til að styðja við hagfelldan viðskiptasamning, þar á meðal fyrir vín og aðra áfenga drykki varðar.