Yrkir, fasteignafélag Festi, gekk frá kaupum á Hvaleyrarbraut 3 í Hafnarfirði, sem hýsir m.a. verslun Krónunnar, fyrir 475 milljónir króna í apríl síðastliðnum.
Kaupin eru hluti af stefnu félagsins um að eiga lykilstaðsetningar til framtíðar með möguleika á frekari þróun í takt við skipulag bæjarins.
„Við viljum ráða okkar eigin örlögum eins og hægt er og hanna þessar lykilstaðsetningar fyrir okkar rekstrarfélög. Yrkir er stöndugt fasteignafélag sem vill vaxa og dafna eins og hin systurfélögin okkar innan Festi. Verkefnin eru mörg og tækifærin liggja víða, sem við ætlum að sækja. Þetta er því gríðarlega spennandi vegferð sem við erum á í Yrki, að halda áfram að bæta þetta stóra eignasafn,“ segir Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis.
Hvað varðar tvö stærstu félögin í samstæðunni, þá á Festi flestallar lóðir og fasteignir undir starfsemi N1 en um helming af þeim fasteignum sem hýsa verslanir Krónunnar. Óðinn segir það henta ágætlega að leigja í bland við að eiga, en áherslan sé þó að eiga mikilvægar staðsetningar.
Dæmi um lykilstaðsetningar eru Lindir og Grandinn þar sem félagið m.a. hefur eða vinnur nú að því að komið upp hleðslustöðvum og bensíndælum. Með því sé horft til þess að skapa meira flæði og stuðla að fleiri heimsóknum hjá rekstraraðilum á lóðunum, hvort sem það eru félög í eigu Festi eða aðrir leigutakar, að sögn Óðins.
Festi vinnur einnig að því að stækka núverandi húsakost á lóð félagsins að Auturvegi 18 í Vík í Mýrdal. Óðinn segir að þar sé horft til þess að bjóða öðrum rekstraraðilum upp á að vera með starfsemi í húsinu ásamt félögum úr samstæðu Festi, líkt og í Lindum eða á Grandanum. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á lóðinni árið 2027.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Óðin í Viðskiptablaði vikunnar.