Matvælaframleiðandinn Vilko, sem meðal annars selur bökunarvörur, súpur og krydd, tapaði 10 milljónum króna í fyrra en árið áður nam tapið 32 milljónum. Vilko skilaði síðast hagnaði árið 2017 en uppsafnað tap 2018-2024 nemur 86 milljónum króna.

Rekstrartekjur Vilko árið 2024 námu 383 milljónum króna, sem er um 39 milljónum minni velta en árið 2023. Vörunotkun nam 187 milljónum, samanborið við 251 milljón árið áður. Laun og launatengd gjöld námu 133 milljónum, samanborið við 114 milljónir árið 2023, en ársverk voru 15, samanborið við 13,8 árið áður.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 154 milljónir í lok árs 2024 en voru bókfærðar á 124 milljónir í árslok 2023. Um síðustu áramót var eigið fé neikvætt um 10 milljónir króna, þar af nam hlutafé 140 milljónum en ójafnað tap nam 150 milljónum, en árið áður var eigið fé jákvætt um 114 þúsund. Skuldir námu 164 milljónum, þar af námu langtímaskuldir 65 milljónum og skammtímaskuldir 99 milljónum. Árið áður námu skuldir 124 milljónum.

Stærstu hluthafar Vilko eru Ámundakinn ehf. með 39,1% hlut en þar á eftir er Kaupfélag Skagfirðinga með 18,5% hlut.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.