Arion banki hefur verið leiðandi í því að koma hreyfingu á sameiningar á íslenskum fjármálamarkaði. Þetta kemur fram í bréfi sem Jón Sigurðsson, forstjór Stoða, sendi hluthöfum í dag. Stoðir eiga stóra hluti í bæði Arion banka og Kviku banka.

„Eftir að hafa gert atlögu að sameiningu við Íslandsbanka, sem var hafnað af stjórn þess banka, náði Arion samkomulagi við Kviku banka um sameiningarviðræður," segir Jón í bréfinu. „Þetta eru einstaklega spennandi viðskipti en gera má ráð fyrir að samlegð verði veruleg, bæði hvað kostnað varðar en ekki síður í sóknartækifærum innanlands og erlendis. Sameinaður banki getur bætt þjónustu við viðskiptavini sína og stutt enn betur við vöxt og uppgang starfsemi Kviku banka í Bretlandi."

Að sögn Jóns hefur rekstur Ivku banka á sama tíma haldið áfram að styrkja og vöxtur í lánasafni hefur verið í samræmi við þau plön sem kynnt voru á fjárfestadegi bankans síðastliðið haust.

„Algjör viðsnúningur hefur orðið á starfseminni í Bretlandi auk þess sem bankinn hefur náð að fjármagna sig á betri kjörum en áður sem eflir reksturinn enn frekar. Endanlegur frágangur á sölunni á tryggingafélaginu TM var samt sem áður stærsti áfanginn á fyrri hluta ársins og mjög ánægjulegt að sjá þeim viðskiptum ljúka með farsælum hætti."

„Það er mín von að sameining Arion banka og Kviku banka gangi hratt og vel fyrir sig þótt viðskipti af þessari stærðargráðu muni alltaf taka dágóðan tíma," segir Jón í bréfinu. "Ég fæ ekki séð hvaða fyrirstaða ætti að vera fyrir samrunanum enda ríkir mikil samkeppni á öllum sviðum bankaþjónustu hérlendis, bæði frá innlendum og erlendum aðilum auk þess sem stærsti banki landsins er enn í ríkiseigu.

Íslenskir bankar eru í öllu samhengi allt of litlir og má til að mynda nefna að heildareignir norska bankans DNB eru tæplega átta sinnum meiri en heildareignir alls íslenska bankakerfisins. Það er því nauðsynlegt að finna leiðir til að efla fjármálafyrirtæki hérlendis svo þau geti boðið upp á samkeppnishæf kjör, fyrirtækjum og neytendum til hagsbóta."

Jón segir að ársfjórðungsleg umfjöllun um vaxtamun bankana virðist vera hafin í kjölfar birtinga uppgjöra þeirra og nefnt sem dæmi að vaxtamunur á Íslandi sé hærri en á Norðurlöndunum.

„Að gefnu tilefni er rétt að ítreka, það sem ég hef margoft bent á, að meginástæðan fyrir háum vaxtamun hérlendis er að eiginfjárkröfur á Íslandi eru tvöfaldar á við það sem þekkist á Norðurlöndunum. Þannig þurfa íslenskir bankar að ávaxta tvöfalt meira eigið fé en hinir erlendu. Það væri því nær að beina þessari gagnrýni að hinu séríslenska regluverki sem kostar heimili og fyrirtæki í landinu ekki undir 50 til 70 milljarða króna á ári, umfram það sem nauðsyn krefur."