Hagnaður Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins nam 16,2 milljörðum króna, samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi bankans. Það er veru­leg aukning frá sama tíma­bili árið áður, þegar hagnaðurinn nam 9,9 milljörðum króna.

Arð­semi eigin­fjár var 16,1% fyrstu sex mánuði ársins, saman­borið við 10,3 pró­sent á sama tíma í fyrra, en hagnaður á hlut nam 11,22 krónum saman­borið við 6,92 krónur árið áður.

Hagnaður á öðrum árs­fjórðungi einum nam 9,8 milljörðum króna og var arð­semi eigin­fjár þá 19,7 pró­sent.

„Góð afkoma skýrist af ýmsum þáttum, en mestu skiptir að þær stoðir sem mynda fjölbreytta starfsemi Arion samstæðunnar gengu nær allar vel á fjórðungnum. Þá hefur markaðsfjármögnun bankans þróast með jákvæðum hætti. Hvað þjónustu við fyrirtæki viðkemur var þetta með umsvifameiri ársfjórðungum, bæði í lánveitingum og ráðgjöf, þar sem lækkandi vaxtaumhverfi hefur leitt til aukinna fjárfestinga í hagkerfinu. Einnig hefur virðisbreyting á eignarhlut Arion í Arnarlandi í Garðabæ, sem nú er í söluferli, jákvæð áhrif á uppgjör bankans,” segir Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóri Arion banka í upp­gjörinu.

Vaxta­munur bankans á fyrri hluta ársins mældist 3,3 pró­sent og jókst lítil­lega frá fyrra ári. Hreinar þóknana­tekjur námu 9,1 milljarði króna, saman­borið við 7,3 milljarða króna árið áður.

Kjarna­tekjur, sem saman­standa af hreinum vaxta-, þóknana- og trygginga­tekjum (án rekstrar­kostnaðar trygginga­starf­semi), hækkuðu um 17,8 pró­sent frá fyrri hluta 2024.

Á öðrum árs­fjórðungi námu hreinar þóknana­tekjur 4,6 milljörðum króna og af­koma dóttur­félagsins Varðar var jákvæð, með 800 milljón króna hagnað.

Aðrar rekstrar­tekjur, að mestu til­komnar vegna virðis­hækkunar á þróunar­eignum, námu 1,3 milljörðum króna.

Virði Arnarlands eykst

Í upp­gjöri fjórðungsins hafði virðis­breyting á eignar­hlut Arion banka í Arnar­landi í Garða­bæ jákvæð áhrif, en félagið er nú í sölu­ferli.

Þá lauk bankinn form­lega kaupum á Arn­grims­son Advis­ors í London á fjórðungnum.

„Við lukum á ársfjórðungnum formlega kaupum á starfsemi ráðgjafafyrirtækisins Arngrimsson Advisors Ltd. og er þjónustan sem félagið býður nú hluti af þjónustuframboði bankans. Félagið sinnir eignastýringarráðgjöf fyrir fagfjárfesta með áherslu á erlenda fagfjárfestasjóði og sérhæfðar fjárfestingar,“ segir Benedikt.

Efna­hags­reikningur bankans hefur stækkað um 5,9 pró­sent frá áramótum og útlán jukust um 38,5 milljarða króna á öðrum árs­fjórðungi.

Eigin­fjár­hlut­fallið var 22 pró­sent í lok júní og hlut­fall al­menns eigin­fjárþáttar 1 var 18 pró­sent, hvort tveggja vel yfir lág­marks­viðmiðum.

„Eigin- og lausa­fjár­staða bankans er sem fyrr sterk,“ segir Bene­dikt.

Þá bendir hann á að tíma­mótaákvörðun hafi einnig verið tekin í mánuðinum með sam­runa­viðræðum við Kviku.

„Stóru tíðindin eru vissu­lega vilja­yfir­lýsing Arion banka og Kviku banka um sam­runa félaganna sem undir­rituð var 6. júlí síðastliðinn.“

Vilja­yfir­lýsingin felur í sér að hlut­hafar Kviku fá 26 pró­senta hlut í sam­einuðu félagi, nái sam­runinn fram að ganga. Bene­dikt segir mark­miðið skýrt:

„Verði af sam­runanum mun það efla þá fjár­málaþjónustu sem sam­einað félag veitir ein­stak­lingum, fyrir­tækjum og fjár­festum. Sam­runinn getur skapað tækifæri til breiðari tekju­myndunar, áhættu­dreifingar og aukins hag­ræðis í starf­semi sam­einaðs félags og þar með á ís­lenskum fjár­mála­markaði.“

Arð­greiðsla og kaup eigin hluta­bréfa námu sam­tals 19,1 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins