Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lækkað lánshæfismat Rússlands úr B niður í C. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters .

Í síðustu viku færði Fitch, auk annarra matsfyrirtækja, Rússland úr flokki BBB, sem telst vera „gott" lánshæfismat og er flokki fyrir ofan áhættufjárfestingar, niður í B sem telst „mikil áhættufjárfesting". Lýsing Fitch á flokknum er á þá leið að útgefandi standi í skilum eins og er og virðist geta haldið því áfram í bili, en lítið megi út af bregða. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í síðustu viku.

Nú er Rússland komið í ruslflokkinn C, en Fitch segir matið byggja á yfirvofandi greiðslufalli rússneska ríkisins. Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja á hendur Rússum hafa haft mikil neikvæð áhrif á hagkerfi Rússlands. Þar má nefna áætlanir um að hætta innflutningi á olíu og gasi frá Rússlandi.

Þann 16. mars er stór gjalddagi hjá ríkissjóði Rússlands, eða tvö skuldabréf að jafnvirði 107 milljóna Bandaríkjadala. Ríkið hefur mánaðarfrest til að greiða skuldabréfin.