Hrafnarnir sjá að Kristrún Frostadóttir hefur nú sett í samráðsgátt áform um atvinnustefnu Íslands fram til ársins 2035.

Í samráðsgáttinni segir meðal annars að tilgangur vinnu við atvinnustefnu sé að móta heildarsýn sem meðal annars „svarar því hvaðan hagvöxtur næstu ára skuli koma“. Hröfnunum þótti athyglisvert að sjá Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, fagna þessu framtaki ríkisstjórnarinnar sérstaklega — í stað þess að benda á hin augljósu sannindi: að uppruni hagvaxtar verði ekki ákveðinn á morgunfundum ríkisstarfsmanna á allt of háum launum með engin tengsl við atvinnulífið yfir rúnstykkjum og gúrkusneiðum í ráðuneytum. Hann er tryggður með því að ríkið tryggi hagfellt rekstrarumhverfi, dragi sig í hlé og láti lögmál framboðs og eftirspurnar gera það sem þau kunna best — að skapa raunverulegan hagvöxt.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.