Alma Möller heilbrigðisráðherra var til viðtals í Sprengisandi á dögunum. Þar ræddi hún m.a. tvær skýrslur sem snúa að heilbrigðiskerfinu, nýja skýrslu Ríkisendurskoðunar og skýrslu sem snýr að sjúkratryggingum. Í máli heilbrigðisráðherra kom m.a. fram að hluti vanda heilbrigðiskerfisins væri skortur á skrifstofufólki.

Neikvætt viðhorf heilbrigðisráðherra í garð einkaframtaks

Það er óhætt að segja að fyrri störf heilbrigðisráðherra í embætti landlæknis hafi ekki vakið mikla eftirvæntingu undirritaðrar um að hún settist í þennan ráðherrastól. Neikvætt viðhorf hennar í garð einkaframtaks er enda alþekkt og landlæknisembættið var holdgervingur gamaldags hugsunar og fordóma í garð þess í hennar tíð. Sem dæmi má nefna innleiðingu á fjarlausnum til að bæta heilbrigðisþjónustu og viðhorf í garð einkaframtaks sem byggist á heilsulæsi og ábyrgð fólks á eigin heilsu. Þá gerðist embættið uppvíst að því að brjóta gegn lögum um opinber innkaup undir stjórn núverandi heilbrigðisráðherra.Samkeppniseftirlitið og eftirlitsstofnun ESA hófu sömuleiðis athuganir á innkaupum ríkisins á heilbrigðislausnum.

Viðhorf heilbrigðisráðherra endurspegluðust þegar hún tilkynnti í byrjun sumars að niðurgreiddum aðgerðum einkarekinnar stofu vegna endómetríósu (endó) yrði fækkað þrátt fyrir langa biðlista. Endómetríósa er sársaukafullur sjúkdómur sem hrjáir allt að 10% kvenna. Eftir mikil mótmæli Endósamtakanna sem undirrituð studdi, endurskoðaði ráðherrann ákvörðun sína og  fól Sjúkratryggingum Íslands að semja við stofuna um fleiri aðgerðir.

Sérstök áhersla heilbrigðisráðherra

Heilbrigðisráðherra kom undirritaðri kannski ekki á óvart í framangreindu viðtali. Í umræðu um vanda heilbrigðiskerfisins sagði ráðherrann m.a. að fleiri starfsmenn vantaði í heilbrigðisráðuneytið. Það þykir undirritaðri sérstök áhersla. Undanfarin ár hefur opinberum starfsmönnum fjölgað margfalt hraðar en starfsfólki á almennum vinnumarkaði, samhliða því að laun þeirra hafa hækkað mikið. Fjölgunin hefur verið mest í opinberri stjórnsýslu. Þróunin hefur orðið sú að meirihluti starfa á íslenskum vinnumarkaði verða til hjá hinu opinbera.

Þetta sýna gögn sem hafa verið lögð fram í þinginu og sömuleiðis má vísa til skýrslu sem Intellecon vann fyrir Félag atvinnurekenda. Skýrslan sýndi fram á mikla fjölgun opinberra starfsmanna umfram starfsmenn á almenna markaðnum og þar af langmest í opinberri stjórnsýslu.

Ofgnótt skrifstofumanna

Þegar kvartað er yfir skorti á heilbrigðisstarfsfólki vil ég að fullyrða að ekki sé átt við fleiri skrifstofumenn. Gagnrýni hefur enda komið fram um að fjöldi stjórnenda brengli tölur um fjölgun opinberra starfsmanna í heilbrigðiskerfinu, m.a. frá formanni Félags sjúkrahúslækna.

Við sem höfum starfað hjá hinu opinbera þekkjum fyrirbærið marglaga stjórnun og ofgnótt skrifstofumanna. Í fjölmörg horn er að líta varðandi mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu, en skrifstofustörf eru ekki eitt þeirra.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.