Ég fékk nýlega sent afrit af samningi sem 26 ára kona hafði gert við þýskt lífeyristryggingafélag með milligöngu tryggingaráðgjafa. Samkvæmt samningnum skal greiða séreignarsparnað hennar til hins þýska lífeyristryggingafélags. Samningurinn ásamt fylgiskjölum er samtals 80 blaðsíður að lengd og er á þýsku. Með honum fylgdi íslensk þýðing á hluta samningsins alls 12 blaðsíður. Á forsíðu íslenska skjalsins kemur fram að þýðingin sé ætluð til upplýsinga og gagnsæis. Ef einhver munur er á milli þýska textans og íslensku þýðingarinnar gildir þýski textinn.
Allir vörsluaðilar lífeyrissparnaðar eru skuldbundnir til að birta stöðluð lykilupplýsingaskjöl um afurðir sínar. Skjölin gera einstaklingum kleift að bera saman áhættu, kostnað og mögulega ávöxtun mismunandi ávöxtunarleiða. Í tilviki konunnar hafði hún valið ávöxtunarleið sem fjárfestir í sex erlendum sjóðum. Í skjalapakkanum hennar eru sex lykilupplýsingaskjöl á þýsku, hvert um sig 3 blaðsíður. Til að meta kostnað, áhættu og mögulega ávöxtun verður hún að lesa lykilupplýsingaskjölin og vega saman.
Hér eru nokkur atriði úr samningnum:
- Langur samningstími. Samkvæmt samningnum skal konan leggja fyrir 33 þús.kr. (um 230 evrur) á mánuði frá 1. september 2025 til 31. mars 2066 eða 40,6 ár.
- Heildarsamningsfjárhæðin er 16,1 m.kr. (33 þús.kr. x 12 mánuði x 40,5 ár).
- Af því greiðir hún 2,5% í sölu- og samningsgerðarkostnað eða samtals 402.474 kr. eða um ein mánaðarlaun (106% af ráðstöfunartekjum). Þessi kostnaður er innheimtur fyrirfram og dreginn af sparnaði (iðgjaldi) og því myndast engin sparnaður fyrstu 12,2 mánuði sparnaðartímans.
- Til viðbótar greiðir konan 6% af hverri greiðslu (iðgjaldi) og eina evru í annan stjórnunar- og rekstrarkostnað. Það þýðir í þessu tilviki að hún greiðir 2 þús.kr. af hverjum 33 þús.kr. í kostnað eða 6,5%. Til að vinna upp þennan kostnað þyrfti árleg umframávöxtun (ávöxtun umfram hóflega ávöxtun í lykilupplýsingaskjölum) að vera 1,3% í 10 ár, 0,6% í 20 ár, 0,4% í 30 ár eða 0,3% í 40 ár.
- Konan greiðir 1,15% á ári af inneign í eignastýringarkostnað (veginn kostnaður í undirliggjandi sjóðum). Sá kostnaður dregst frá árlegri ávöxtun.
- Í lykilupplýsingablöðum kemur fram að það getur verið mjög dýrt að hætta að greiða iðgjöld, sérstaklega fyrstu árin þar sem stór hluti sparnaðar getur farið í kostnað. Þar kemur fram að kostnaðurinn verður 46% ef rétthafi innleysir eftir 1 ár (væntanlega eftir að sparnaður byrjar að myndast eða þegar upphafskostnaður er að fullu greiddur) og 2,1% á ári ef rétthafi innleysir eftir 20 ár.
Konan sagðist ekki hafa verið upplýst um kostnaðinn við samninginn og vissi til dæmis ekki af því að hún þarf að greiða rúmlega ein mánaðarlaun í upphafskostnað. Hún vissi ekki heldur að ef hún skiptir um vinnu og þarf að greiða í annan lífeyrissjóð getur hún ekki staðið við samninginn og gæti tapað stórum hluta sparnaðarins. Sem betur fer hringdi hún í vin áður en greiðslur samkvæmt samningnum hófust og fylgdi ráðleggingu hans um að segja samningnum upp á svonefndum iðrunartíma (samkvæmt orðalagi í íslenskri þýðingu á þýska samningnum).
Ég hef áður bent á að íslenskir launþegar eiga kost á betri leiðum hjá innlendum séreignarsjóðum þegar kemur að ávöxtun séreignarsparnaðar. Þar er enginn upphafskostnaður og ekki dreginn kostnaður af hverju greiddu iðgjaldi. Árlegur eignastýringarkostnaður er lægri en í þessu dæmi og sjóðfélagar geta hvenær sem er hætt að spara án kostnaðar eða flutt sig til annars vörsluaðila. Upplýsingagjöfin er einnig skýrari og lykilupplýsingablað á íslensku er aðgengilegt fyrir hverja ávöxtunarleið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.