Veðrið lék við landsmenn í síðustu viku og fyrir vikið ákváðu ríkisstofnanir á borð við Skattinn að stytta vinnuviku starfsfólks síns enn frekar með því að gefa starfsfólki sínu sólarfrí.

Heimildir hrafnanna herma að Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hafi verið í sama stuði og ríkisstofnanirnar og gefið sínu fólki sólarfrí. Þannig fengu SA liðar forskot á sumarsæluna því í byrjun vikunnar lokaði Hús atvinnulífsins og verða dyr þess ekki opnaðar á ný fyrr en eftir verslunarmannahelgi.

Skattgreiðendur eru öllu vanir þegar kemur að vanvirðingu stjórnenda stofnana ríkisins fyrir skattfé en hrafnarnir velta fyrir sér hvort aðildarfélög SA hafi mikinn húmor fyrir að fjármagna Hagstofu atvinnulífsins.

Að minnsta kosti virðast ráðamenn í Frakklandi átta sig á því að frídagar eru ekki ókeypis því Francois Bayrou, forsætisráðherra Frakklands, hefur lagt til að almennum frídögum þar í landi verði fækkað úr ellefu í níu til að minnka ríkisskuldir.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.