Í Bretlandi er fyrirbærið helst tengt við leigubílstjóra sem óhikað gefa fjármálaráð, enda frétta þeir ýmislegt á rúntinum. Kínverjar kalla þetta frænkuáhrifin, Japanir vísa í herra Watanabe og í Bandaríkjunum er talað um foreldra sem fylgjast með kappleikjum barnanna sinna.
Almenningur nær verri árangri
Þarna er lýst stemningu eða orðrómi sem hrindir af stað hjarðhegðun almennra fjárfesta á markaði. Oft byggir slíkt á tilfinningum og ofureinföldun og ætíð á ávöxtun viðkomandi fjárfestinga í fortíð. Hér er ég ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli. Við þekkjum þessa svokölluðu varanleikaslagsíðu, sem hefur átt þátt í að skýra hvers vegna almenningur virðist ná verri árangri á verðbréfamörkuðum en vísitölurnar. Árangur í fortíð er þá túlkaður sem fyrirheit um ávöxtun til framtíðar og almenningur eltir því sveiflur, kaupir á toppnum og selur á botninum.
Auðvitað viljum við þetta ekki. Við viljum að almenningi farnist vel í fjárfestingum en að sama skapi þurfum við að vera meðvituð um þá tilhneigingu okkar til að sækja í einfaldar fullyrðingar um stefnu markaða.
Ég reikna með að hér á landi megi rekja stóran hluta þessara óheppilegu áhrifa til heitra potta landsins. En getur verið að fjölmiðlar, jafnvel þeir sem fjalla um viðskipti með annars ábyrgum hætti, eigi til óheppilegt orðalag sem jafnvel hefur sömu áhrif?
Villandi orðalag?
Endrum og sinnum lesum við fréttir af hlutabréfum og vísitölum sem sagðar eru „í frjálsu falli“. En er rétt að greina frá verðlækkunum, sem þegar hafa komið fram, með þeim hætti? Almenningur, sem ekki er endilega fyllilega upplýstur um ástæður lækkana, gæti auðveldlega lesið út úr orðalagi fréttanna að bréfin haldi áfram að lækka og enginn botn sé í sjónmáli. Það væri ef til vill ekki eins grípandi á blaði að greina frá því að hlutabréf hafi lækkað í verði, en þar væri þó verið að segja satt og rétt frá.
Hversu frjálst var fallið?
Ef við lítum á fréttaflutning síðastliðins árs má finna fjölmargar fréttir hérlendis þar sem rætt er um hlutabréf í frjálsu falli. Þegar fjarlægðar hafa verið fréttir af sömu atburðum og á svipuðum tíma sjáum við 12 vísanir í tiltekin hlutabréf eða hlutabréfavísitölur.
Af þeim hefur hlutabréfaverð aðeins lækkað í tveimur tilvikum frá birtingu fréttarinnar. Í báðum var um að ræða fréttir um að verð hlutabréfa í flugfélaginu Play væri í frjálsu falli. Annars vegar hafa bréfin lækkað um 68% frá frétt í ágúst og hins vegar um 40% frá því í október.
Allar aðrar fréttir af frjálsu falli hafa reynst rangar og hefur hækkun verðs verið umtalsverð frá birtingu frétta. Sem dæmi má nefna að hlutabréfaverð beggja vegna Atlantsála var sagt í frjálsu falli í apríl síðastliðnum. Á þeim skamma tíma sem liðinn er hefur það hækkað um 17% í Bandaríkjunum og 12% í Evrópu. Hlutabréf í Sýn eru 26% verðmætari en í febrúar, þrátt fyrir meint frjálst fall félagsins og Tesla er 46% verðmætara en í mars, svo dæmi séu tekin.
Ef fjárfest var fyrir sömu fjárhæð í hvert skipti sem umrætt félag eða vísitala var sagt í frjálsu falli væri ávöxtunin raunar 70% á ársgrundvelli frá birtingu fréttarinnar. Hefur þá samt sem áður verið fjárfest í tvígang í Play.
Hver er lærdómurinn?
Við skulum ekki draga þann lærdóm af þessu litla úrtaki að kauptækifæri leynist í fréttum af frjálsu falli. En við ættum kannski að vanda orðavalið. Verðbólga er ekki endilega að hjaðna ef næsta mæling verður þokkaleg heldur hefur hún þá hjaðnað milli mánaða og KR er varla á leið niður þrátt fyrir að sitja í fallsæti.
Það er til mikils að vinna ef almennum fjárfestum fer að ganga betur. Varanleikaslagsíðan virðist þó innbyggð í okkur, en við getum unnið gegn henni með vandaðri og opinni umræðu um fjárfestingar. Upplýsandi umræðu sem dregur úr hræðslu við frjálst fall eða vonum um skjótfenginn gróða.
Höfundur er fyrirlesari og fjármálaráðgjafi.