Skilaboðin sem peningastefnunefnd Seðlabankans sendi frá sér í síðustu viku eru umhugsunarverð. Peningastefnunefndin hefur tekið af allan vafa um að hún muni ekki lækka vexti fyrr en verðbólgan nálgast 2,5% og útilokar hún þar með að vaxtatækinu verði beitt í fyrirsjáanlegri framtíð ef samdráttur verður í hagkerfinu á meðan verðbólga helst há.
Í sjálfu sér er það virðingarvert sjónarmið. Stjórntæki peningamálastefnunnar eru ekkert sérlega skilvirk þegar kemur að hinu nöturlega ástandi sem samdráttur í hagkerfinu sam-hliða þrálátri verðbólgu skapar. Í slíku -ástandi -reynir meira á aga í ríkisfjármálum – aga sem ekki er til staðar og fátt bendir til að komist á í fyrirsjáanlegri framtíð.
Ásgeir Jónsson seðlabanka-stjóri sagði við viðskiptavefinn Innherja í síðustu viku að hann væri reiðubúinn að halda raunvöxtum háum þó svo að það myndi leiða til harðrar lendingar í hagkerfinu. Þórarinn G. Pétursson varaseðlabankastjóri bætti um betur þegar hann sagði á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina að bankinn myndi ekki hika við að -hækka vexti ef þurfa þykir.
En er líklegt að þessi sviðsmynd raungerist – að lendingin verði hörð á sama tíma og verðbólga reynist þrálát?
Ýmislegt í nýjustu peningamála-skýrslu Seðlabankans bendir til annars. Í áðurnefndu viðtali við Innherja segir Ásgeir:
„Það er jafnframt ljóst að verðbólgan án húsnæðisliðarins er núna nálægt markmiði. Ef okkur á hins vegar að takast að ná allri verðbólgunni niður í 2,5 prósent þá þurfa hækkanir á húsnæðis- og leigumarkaði að hætta, sem ég tel að muni gerast.“
Fram kemur í peningamálaskýrslunni að fasteignaverð á landinu hafi hækkað um 4,7% milli ára í júní, sem er mun minna en í byrjun árs þegar árshækkunin náði 10,4%. Á sama tíma hefur íbúðum til sölu fjölgað verulega, eða í um 4.800 í júlí, þar af 1.900 nýbyggingar. Kaupsamningum hefur hins vegar fækkað um rúmlega fimmtung á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra, þó að hluti samdráttarins skýrist af grunnáhrifum vegna mikillar veltu við uppkaup í Grindavík í fyrra. Jafnvel án þeirra áhrifa hefur samt orðið rúmlega 5% samdráttur. Þá hefur meðalsölutíminn lengst í 5,4 mánuði, samanborið við 3 mánuði í fyrra, en er miklu meiri í tilviki nýbygginga eða um 17 mánuðir. Þetta er talið endur-spegla að margar nýjar eignir séu enn of hátt verðlagðar, sem skýrir að hluta 42% samdrátt í kaupsamningum um nýbyggingar það sem af er ári.
Allt bendir þetta til þess að leiðrétting sé fram undan á fasteignamarkaðnum. Leiðrétting sem að öllu öðru óbreyttu gæti komið böndum á verðbólguna. Því hefur verið haldið fram að nýjar íbúðir seljist ekki um þessar mundir vegna þess að þær henti ekki kaupendum. Vafalaust er eitthvað til í því, en markaðslögmálin segja okkur að þegar vara selst ekki er verðið ekki rétt. Þetta lögmál mun á endanum ráða för. Hvenær sú leiðrétting á sér stað veit þó enginn. Mikilvægt er að hafa í huga að seðlabankastjóri hefur tekið af allan vafa um að ekki verði slakað á lánþegaskilyrðum fasteignalána, og sú ákvörðun skiptir máli í þessu samhengi.
Merki eru um að þetta ferli sé nú þegar hafið. Eins og fram kemur í gögnum HMS hefur vísitala húsnæðisverðs hækkað um 1,1% undan-farið hálft ár. Það er 2,2% á árs-grund-velli sem er vel undir verðbólgu á sama tíma-bili. Við erum að horfa á raunverðslækkanir á húsnæðis-markaði.
Það sem gæti fyrst og fremst sett peningastefnunefndina milli steins og sleggju er skyndileg leiðrétting raungengisins. Verðbólguáhrif slíkrar þróunar eru öllum augljós og slík leiðrétting færi ekki fram án samdráttar í hagkerfinu.
Það eru krefjandi tímar fram undan.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom 27. september 2025.