Sátt er áhugavert hugtak. Í því felst að tveir aðilar, eða fleiri, nái að komast að samkomulagi um tilgreind úrlausnarefni. Venjulega gerist það að loknum samningum þar sem hvor um sig kemur sínum sjónarmiðum á framfæri. Niðurstaðan verður að vera á þann hátt að allir gangi sáttir frá borði eða geti í öllu falli unað við niðurstöðuna.

Við, sem tengjumst sjávarútvegi, höfum hlustað á það lengi að sátt verði að ríkja um greinina. Því höfum við verið fullkomlega sammála, við höfum þó verið raunsæ um að fólk kunni að leggja ólíkan skilning í sátt.

Í þessi nýju lög um veiðigjald, sem búið er að samþykkja, vantar þetta mikilvæga atriði –  sjálfa sáttina, sem stjórnvöldum hefur verið svo tíðrætt um.

Þegar óskað var umsagnar um frumvarpið, sem virðist helst hafa verið til málamynda, þá mótmæltu þeim allir sem koma að greininni, þeirra á meðal nánast öll fyrirtæki í sjávarútvegi. Það væri ekki hægt að hækka þessi gjöld svona mikið án þess að það hefði áhrif á rekstur og stöðuna í alþjóðlegri samkeppni.

Bæjarfélög mótmæltu. Einkum þau sem eiga mikið undir sjávarútvegi og hafa skapað sér samtök um hagsmuni sína. Þau lýstu þungum áhyggjum af lægri útsvarstekjum og fækkun atvinnutækifæra, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn voru líka öll á sama máli og komu þeirri skoðun sinni skilmerkilega til skila. Þau bentu á að afkoma þeirra væri nátengd afkomu fyrirtækja í greininni og forsenda nýsköpunar.

Fræðimenn gerðu líka verulegar athugasemdir við frumvarpið og bentu á að þessi hækkun myndi hafa alvarlegar afleiðingar á allt frá afkomu til byggðaþróunar og lífskjara. Þessi hækkun myndi ekki ganga upp, út frá sjónarhóli hagfræðinnar.

Allt kom fyrir ekkert.

Það má eflaust finna mörg orð yfir þetta ferðalag sem við höfum fylgst með síðustu mánuði. Sátt er ekki eitt af þeim.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.