Vinur er sá sem til vamms segir og glöggt er gests augað. Það er ágætt að hafa þessa málshætti bak við eyrað þegar lesin er skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar um stöðu mála hér á landi, sem kynnt var í sumar.
Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar af Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra og Matthias Cormann, framkvæmdastjóra OECD, á blaðamannafundi í sumar. Skýrslan vakti ekki sérstaklega mikla athygli og varð ekki tilefni til mikilla umræðna.
Það er ekkert sérstakt undrunarefni, enda voru landsmenn með hugann við annað yfir hásumarið. Eigi að síður gefur skýrslan glögga mynd af stöðu mála hér á landi og bendir á þær blikur sem eru á lofti.
Í skýrslunni er bent á þá staðreynd að þrátt fyrir mikinn hagvöxt undanfarin ár hafi stjórn efnahagsmála verið óábyrg. Þrátt fyrir góðæri í efnahagslífinu síðustu ár hefur hallarekstur hins opinbera haldið áfram; ríkisútgjöld hafa sýnt merki um
sveiflutengd áhrif og heildarskuldir ríkisins haldist háar.
Þá er sérstaklega vikið að útgjöldum vegna örorku á vinnumarkaði. Kostnaður ríkissjóðs vegna örorku hefur aukist verulega og að mati OECD hefur það sett varasaman þrýsting á ríkisútgjöld og dregið úr þátttöku á vinnumarkaði.
Sá hluti skýrslunnar sem fjallar um menntakerfið vakti hvað mesta athygli fjölmiðla. Að mati stofnunarinnar gefa niðurstöður PISA-kannana tilefni til alvarlegra áhyggna um stöðu mála.
Þá er bent á að sú stöðnun sem hefur ríkt í virkjunarmálum hér á landi hafi leitt til framboðsskorts og verðhækkana og þannig grafið undan samkeppnishæfni hagkerfisins.
Áhugavert er að skoða þessar ábendingar með hliðsjón af þeirri vegferð sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er að feta. Í raun virðist einungis einn ráðherra, Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- og orkumálaráðherra, taka ábendingum stofnunarinnar um sinn málaflokk alvarlega.
Ríkisstjórnin hefur gefið upp á bátinn áform um að ná fram hallalausum fjárlögum árið 2027. Þess í stað er stigið á bensínið og bætt við hallareksturinn. Í stað þess að hlusta á ráðgjöf Efnahags- og framfarastofnunarinnar hefur ríkisstjórnin uppi áform sem munu auka enn frekar útgjöld vegna örorku á vinnumarkaði.
Má þar nefna frumvarp um vísitölutengingu bótagreiðslna, sem felur í sér sjálfvirknivæðingu útgjalda ríkissjóðs og grefur þannig undan sjálfbærni opinberra fjármála. Þá felur frumvarp fjármálaráðherra um víxlverkun örorkulífeyrissjóðsgreiðslna í sér atlögu að ellilífeyrisþegum.
Greiningar sýna að ellilífeyrisgreiðslur einstakra lífeyrissjóða gætu lækkað um allt að 5-7,5% ef frumvarpið verður samþykkt. Daði Már hefur að vísu lofað lífeyrissjóðunum að það verði þeim bætt upp, en það verður þó ekki gert nema með frekari ríkisútgjöldum, sem væntanlega verða fjármögnuð með enn frekari skattahækkunum.
Nýbirt aðgerðaráætlun mennta- og barnamálaráðherra fyrir árin 2025–2027 sýnir að stjórnvöld ætla ekki að taka grafalvarlega stöðu menntakerfisins alvarlega. Áætlunin er orðavaðall um „jöfn tækifæri“ og önnur óáþreifanleg markmið. Fátt er hönd á festandi í áætluninni, annað en það að efla eigi grænfánaverkefni Landverndar í grunnskólum landsins.
Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir fjölmörgum áskorunum um þessar mundir. Ríkisstjórnin verður að vera reiðubúin til að mæta þeim af festu. Fátt bendir til þess að hún ætli sér að gera einmitt það.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.