Fyrir þau sem láta sig sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja og lagasetningu ESB á því sviði varða, hafa nýjustu vendingar í þeim efnum, svokölluð Omnibus-tillaga framkvæmdastjórnar ESB, ekki farið fram hjá neinum.
Tillagan sem lögð var fram í lok febrúar á þessu ári, og á að vera fyrsta skrefið í einföldun regluverks ESB á fleiri sviðum, felst í stuttu máli um breytingar á tilskipunum og reglugerðum sem tengjast upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni, með það að markmiði að draga úr stjórnsýslubyrði og bæta samkeppnishæfni Evrópu.
Ákveðnar breytingar í þessum tillögum, og líklega þær sem hafa hlotið mesta umfjöllun, sbr. breytingar á CSRD-tilskipun ESB, eru háðar pólitískri umræðu og hafa valdið ágreiningi, bæði innan Evrópuþingsins og ráðsins. Þegar þetta er skrifað hefur ekki náðst niðurstaða í þeim efnum, sem snýr eflaust fyrst og fremst að gildissviði tilskipunarinnar og þá hversu mörg fyrirtæki munu þurfa að birta sjálfbærniupplýsingar sínar.
Hvað er Omnibus?
Til viðbótar hefur umrædd tilskipun ekki verið tekin upp í EES-samninginn og ekki innleidd hér á landi. Þó hafa fjölmörg íslensk fyrirtæki þegar hafið undirbúning upplýsingagjafar og jafnvel birt upplýsingar til samræmis við önnur fyrirtæki í Evrópu sem er vel. Slíkt skilar sér vonandi í betra utanumhaldi um sjálfbærniþætti rekstursins og betri áhættustýringu ófjárhagslegra þátta.
Það sem hins vegar er komið á hreint og snertir íslensk fyrirtæki beint, eru fyrstu breytingarnar sem hafa átt og munu eiga sér stað á flokkunarreglugerð ESB, en sú tók gildi hér á landi 1. júní 2023.
Breytingar á flokkunarreglugerðinni í kjölfar Omnibus felast einungis í breytingum á framseldum reglugerðum og runnu þær því talsvert hraðar og hljóðlátar í gegnum lagasetningarferli Evrópusambandsins og var lokaútgáfan birt þann 4. júlí sl. Stefnt er að því að þessar breytingar taki gildi innan ESB frá og með 1. janúar 2026, en gildistaka hér á landi liggur ekki fyrir fyrr en að lokinni upptöku í EES- samninginn. Fyrirtæki hafa þó val um að birta óbreyttar upplýsingar fyrir árið 2025 ef þau kjósa.
Þetta er fyrsta skref framkvæmdastjórnarinnar í einföldun á regluverki flokkunarreglugerðarinnar, og sérstaklega þegar kemur að kröfum um að valda ekki umtalsverðu tjóni og byggja að stórum hluta á tillögum Vettvangs um sjálfbær fjármál (e. Platform on Sustainable Finance).
Hvað breytist?
Helstu breytingar eru á framseldri reglugerð 2021/2178 um upplýsingagjöf og viðaukum við tæknileg matsviðmið, en engar breytingar eru gerðar á flokkunarreglugerðinni sjálfri.
Í fyrsta lagi, til að draga úr stjórnsýsluálagi, þurfa fyrirtæki sem ekki eru á fjármálamarkaði ekki að birta upplýsingar um ákveðna starfsemi ef lykilárangursvísar, þ.e. samanlagt virði veltu, rekstrargjalda og fjárfestingagjalda fyrir tilgreinda starfsemi er undir 10%. Ennfremur, ef samanlögð velta starfsemi, sem telst falla undir reglugerðina, er minni en 25% verður ekki skylda að upplýsa um rekstrargjöld, þar sem almennt er talið að upplýsingar um rekstrarkostnað hafi minni þýðingu við mat á sjálfbærnistarfsemi fyrirtækja en velta eða fjárfestingar.
Ennfremur heimilar þessi regla ákveðnum fjármálafyrirtækjum sem lúta nokkrum lykilárangursvísum, eins og lánastofnunum, að undanskilja ákveðna lykilárangursvísa sem ná yfir starfsemi sem ekki telst mikilvæg fyrir starfsemi þeirra og einfaldar því einnig upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja.
Í öðru lagi eru fyrirtæki sem falla ekki undir gildissvið flokkunarreglugerðarinnar undanskilin upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja um áhættuskuldbindingar þar til frekari endurskoðun á regluverkinu hefur átt sér stað. Að öðru leyti er ekki fjallað um gildissvið í tillögunum, og helst það því óbreytt, það er, að gildissviðið fylgir fyrra gildissviði ófjárhagslegra upplýsinga sem mun að öllum líkindum breytast með títt nefndri CSRD-tilskipun. Hér á landi er gildissviðið því það sama og verið hefur þangað til aðrar breytingar verða settar fram.
Í þriðja lagi hafa almenn skýrslusniðmát, bæði fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði og utan hans, verið stytt og einfölduð án þess að mikilvægar upplýsingar um umhverfisárangur glatist. Breytingin felur í sér 64% færri gagnapunkta fyrir fyrirtæki sem ekki eru á fjármálamarkaði, 89% minnkun fyrir lánastofnanir og er því til þess fallin að einfalda alla skýrslugjöf umtalsvert.
Til viðbótar hefur sá kafli sem fjallar um mengun og mengunarvarnir og fylgir öllum tæknilegum matsviðmiðum verið einfaldaður.
Næstu skref
Frekari tillögur til einföldunar liggja fyrir, bæði sem komu fram í áðurnefndri skýrslu Vettvangs um sjálfbær fjármál (e. Platform on Sustainable Finance), en einnig annarri skýrslu sama hóps sem birt var í mars síðastliðnum, eftir að Omnibus-tillögur framkvæmdastjórnarinnar höfðu verið settar fram. Þar var áhersla lögð á að koma með tillögur að nýrri starfsemi sem falla myndi undir flokkunarreglugerðina, auk tillagna til úrbóta á tæknilegum matsviðmiðum, byggt á athugasemdum sem komu í gegnum svokallað beiðnakerfi hagsmunaaðila (e. EU Taxonomy Stakeholder Mechanism). Kerfinu er ætlað að gefa hagsmunaaðilum færi á að leggja fram tillögur byggðar á vísindalegum og/eða tæknilegum sönnunargögnum um mögulega nýja atvinnustarfsemi sem bæta mætti við flokkunarkerfið eða endurskoðun á núverandi tæknilegum matsviðmiðum.
Þær tillögur sem birtar voru þar og snúa beint að hagsmunum margra íslenskra fyrirtækja, lúta helst að tæknilegum matsviðmiðum sem varða byggingar, sem hefur verið ein helsta hindrun íslenskra fyrirtækja við upplýsingagjöf sökum skorts á innleiðingu orkunýtingartilskipunar ESB. Auk ýmissar einföldunar á túlkun ákveðinna matsviðmiða innan byggingaflokksins, leggur Vettvangurinn til að heimilt sé að nýta aðrar sannanir til að sýna fram á hlítni við tæknileg matsviðmið. Lagt er til að framkvæmdastjórnin komi fram með lista yfir samþykktar sannanir, en líklega er um að ræða aðrar vottanir á orkunýtni bygginga, svo sem BREAM og LEED osfrv. Nái þessar breytingar í gegn eins og allt bendir til, munu þær vonandi hafa þau áhrif að íslensk fyrirtæki sem vilja upplýsa um umhverfislega sjálfbærni rekstur síns, óháð gildissviði reglugerðarinnar, standi jafnari fæti öðrum evrópskum fyrirtækjum.
Þessar breytingar, ásamt öðrum einföldunum sem munu líta dagsins ljós á næstu misserum og ekki hafa verið taldar upp hér, gera það að verkum að virkni og notagildi flokkunarreglugerðarinnar, sem helsta tól dagsins í dag til að ákvarða umhverfislega sjálfbærni, mun styrkjast enn frekar. Breytt gildissvið gerir það að verkum að fyrirtækjum sem verða undanþegin er meira í sjálfsvald sett hvort þau sjái hag sinn í að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, en fyrir þau sem vilja sýna fram á umhverfislega sjálfbærni eru bjartari tímar framundan með einfaldara regluverki. Flokkunarreglugerðin er komin til að vera og er enn það tól sem hvað best samræmir umhverfisupplýsingagjöf fyrirtækja þó vissulega megi alltaf gera betur. Umhverfislegar áskoranir og áhættur, gæði gagnaöflunar og markvissar upplýsingagjafir hverfa ekki þrátt fyrir einföldun regluverks en ábyrgðin og framsetningin er meira í höndum fyrirtækjanna sjálfra.
Höfundur er verkefnastjóri í Sjálfbærniráðgjöf Deloitte.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.