Strax þegar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við völdum um áramótin var ljóst að blikur væru á lofti í alþjóðamálum og mikið myndi reyna á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formann Viðreisnar.
Á þessum tíma varð ljóst að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, myndi efna til tollastríðs við umheiminn og þar með freista þess að umturna öllum þeim leikreglum sem gilt hafa um alþjóðaviðskipti undanfarna áratugi. Á sama tíma lá fyrir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, myndi engu eira í innrásarstríði sínu í Úkraínu. Rétt eins og allir lesendur breska vikublaðsins The Economist og aðdáendur Pawels Bartoszek ættu að vita, þá er Pútín helsti stuðningsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu – ásamt þeim Helga Magnússyni fjárfesti og Ólafi Arnarsyni, fyrrverandi formanni Neytendasamtakanna.
Þorgerður utanríkisráðherra beið ekki boðanna. Síðan þá hefur hún ferðast vítt og breitt um norðurhvel jarðar til að gæta hagsmuna Íslendinga – þó með viðkomu á handboltamóti í Króatíu í fyrstu. Hún hefur skrifað undir alþjóðasamninga sem skuldbinda Íslendinga til að taka upp utanríkisstefnu Evrópusambandsins í einu og öllu, umræðulaust, og beitt sér fyrir því að Íslendingar séu, eins og hendi sé veifað, komnir í bólakaf í aðildarviðræður við ESB.
Týr veltir fyrir sér: Hver er niðurstaðan af þessu brölti?
Í fyrsta lagi er niðurstaðan sú að Bandaríkjastjórn hefur hækkað tolla á íslenskan útflutning um helming, þannig að hann verður 15% í stað 10%. Evrópuvegferðin hefur í öðru lagi skilað því að fólkið í Brussel hefur ákveðið að leggja refsitolla á íslenskan útflutning til hins sameiginlega markaðar.
Þorgerður hefur þannig sýnt að hún er ekki síður harðsnúinn samningamaður en Svavar heitinn Gestsson og Indriði Þorláksson voru í Icesave-deilunni. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir alla þá sem eru spenntir fyrir „aðildarviðræðum“ við Evrópusambandið á þeirri forsendu að það verði „að kíkja í pakkann“.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 13. ágúst 2025.