Þær breytingar hafa orðið í framkvæmdastjórn BL ehf. að Heiðar Sveinsson, framkvæmdastjóri Hyundai, hefur látið af því starfi eftir þriggja áratuga starf hjá fyrirtækinu og lýkur hann endanlega störfum hjá félaginu 30. september.

Við kefli Heiðars hefur Ingþór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs BL, tekið og í hans stað hefur Trausti Björn Ríkharðsson verið ráðinn í starf þjónustustjóra. Samkvæmt tilkynningu tóku breytingarnar formlega gildi þann 13. ágúst sl.

Heiðar Sveinsson hefur starfað í bílgreininni í um 35 ár, fyrst hjá Bílaumboðinu ehf. á árunum 1991 til 1995 sem sölustjóri fyrir vörubíla og rútur frá Renault. Þá réðst hann til Bifreiða- og landbúnaðarvéla sem sölustjóri fyrir atvinnubíla sem jafnframt markaði upphaf rekstrar atvinnubíladeildar B&L.

Sjö árum síðar, árið 2002, tók Heiðar við starfi framkvæmdastjóra sölusviðs nýrra og notaðra bíla. Sumarið 2008 tók hann svo við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og 2012 við starfi framkvæmdastjóra Hyundai á Íslandi við sameiningu B&L ehf. og Ingvars Helgasonar ehf. sem hlaut nafnið BL ehf.

Ingþór Ásgeirsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra þjónustusviðs BL frá árinu 2015, en undir sviðið heyra rekstur þriggja bifreiðaverkstæða BL, réttingar- og málningarverkstæðið að Viðarhöfða, innkaupadeild, heildsala og dreifing varahluta, tollamál og standsetning nýrra bíla.

Hann hefur setið í þjónusturáði Bílgreinasambandsins og stjórnum fyrirtækja sem tengjast BL-samsteypunni og einnig komið að því að styrkja réttinda- og gæðamál innan bílgreinarinnar.

Áður en Ingþór réðst til BL starfaði hann í tæp 26 ár hjá Pennanum, í upphafi á lager, síðan deildarstjóri, sölustjóri, verslunarstjóri og svo lengst af sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs fyrirtækisins.

Ingþór stýrði m.a. uppsetningu og þróun vefverslunar Pennans og Eymundssonar, stofnaði vildarklúbb Eymundsson og kom að uppbyggingu kaffihúsa í samstarfi við Te&Kaffi í verslunum Eymundssonar víða um land.

Trausti Björn Ríkharðsson á einnig langa sögu að baki hjá BL en hann réðst upphaflega til BL sem nemi í bifvélavirkjun árið 2003 og hélt áfram starfi hjá fyrirtækinu að lokinni útskrift. Fáum árum síðar færðist Trausti yfir í móttökuna þar sem reynslan af bifvélavirkjun kom sér m.a. vel í upplýsingagjöf og þjónustu við viðskiptavini.

Í ársbyrjun 2017 tók Trausti við starfi þjónustustjóra Jaguar Land Rover og á síðasta ári við nýju hlutverki sem þjónustustjóri BL ehf., sem hann gegndi uns hann var ráðinn framkvæmdarstjóri þjónustusviðs félagsins, en undir það heyra allar starfsstöðvar BL sem eru alls sex í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.