Íslandsbanki hefur ráðið tvo nýja starfsmenn á Markaðs og samskiptasvið. Kristín Hildur Ragnarsdóttir hefur verið ráðin fræðslustjóri og Elfa Arnardóttir deildarstjóri vörumerkis Íslandsbanka.

Elfa kemur til Íslandsbanka frá Marel, þar sem hún leiddi alþjóðlega markaðsdeild innan sviðsins Retail & Food Service en hún hefur um árabil starfað við markaðssetningu, vörumerkjastjórnun og vörustjórnun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við NIKE og LEGO Group.

Hún er með BSc gráðu í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA gráðu frá Háskólanum í Árósum í Danmörku með áherslu á nýsköpun og leiðtogahæfni.

Kristín Hildur hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2022, en hún leiddi áður vöruþróun fyrir ungt fólk og fjárfestingar á Einstaklingssviði bankans. Hún kom til Íslandsbanka frá Deloitte þar sem hún hafði starfað á sviði viðskiptalausna frá 2018 og þar áður starfaði hún hjá fjárstýringu Eimskips.

Kristín er með BSc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaréttindum.