Alp hf., sem sér um rekstur Avis, Budget og Payless bílaleigumerkjanna á Íslandi, hefur ráðið Kristínu Evu Ólafsdóttur í stöðu vef- og markaðssérfræðings og Gauta Magnússon í stöðu viðskiptastjóra á innanlandsmarkaði.

„Í nýjum hlutverkum munu þau leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu og þróun, hvort sem er í stafrænum lausnum eða í þjónustu við viðskiptavini á íslenskum markaði,“ segir í fréttatilkynningu.

Kristín Eva Ólafsdóttir mun stýra þróun stafrænna lausna og markaðssetningar vörumerkja Alp hf. með áherslu á markvissar, notendavænar og árangursdrifnar lausnir. Hún er með BS-gráðu í Ferðamálafræði og MSc í Markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum, auk þess sem hún lauk nýverið námi í vefþróun.

Gauti Magnússon mun sinna lykilhlutverki í rekstri og stefnumótun innanlandsmarkaðarins, meðal annars með því að halda utan um greiningar og skýrslugerðir sem styðja við ákvarðanatöku og vöxt félagsins. Hann er með BS-gráðu í viðskiptafræði og er að ljúka mastersnámi í verkefnastjórnun.

„Með komu Kristínar Evu og Gauta styrkjum við stöðu okkar enn frekar og getum betur mætt þeim væntingum og gæðakröfum sem gerðar eru til okkar,“ segir Daníel Hansson, sölu- og markaðsstjóri Alp hf.

Hann bætir við að fram undan séu bæði spennandi og krefjandi verkefni sem kalli á nýjar lausnir, aukna stafræna þróun og árangursdrifna nálgun í rekstri og markaðsmálum.

Alp hf. sér um rekstur bílaleigumerkjanna Avis, Budget og Payless á Íslandi.