Jennica Chiang hefur hafið störf sem markaðsstjóri Smitten og mun leiða áframhaldandi vöxt fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Hún kemur frá Filippseyjum þar sem hún var meðal annars stofnandi og framkvæmdastjóri matvörunetverslunarinnar Shop Suki.
Hún er með víðtæka reynslu og sérfræðiþekkingu í markaðsmálum frá Bretlandi og Suðaustur-Asíu með áherslu á stjórnun, stafræna þróun og umbreytingar og vöxt fyrirtækja.
Áður en Jennica kom til Smitten var hún framkvæmdastjóri umbreytinga (e. Chief Transformation Officer) hjá KCC Malls þar sem hún meðal annars byggði upp og stýrði teymum sem sáu um gagnaöflun, úrvinnslu og greiningu, markaðsrannsóknir, vörumerkjastjórnun og fleira.
Jennica er með B.A-gráðu frá London College of Fashion, diplóma frá Institute of Data and Marketing (IDM) og hefur einnig sótt námskeið í Harvard.
„Það er þvílíkur heiður að fá Jennicu til liðs við okkur. Hún er frábær viðbót við öflugt teymi Smitten sem hefur þegar náð glæsilegum árangri og við erum sannfærð um að hennar innsýn og leiðtogahæfileikar muni gera okkur enn sterkari,“ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri Smitten.