Þróunar- og fasteignafélagið Landsbyggð, sem festi nýlega kaup á gömlu höfuðstöðvum Landsbankans og Landsvirkjunar, hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu félagsins um allt land.

Andri Þór Arinbjörnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri framkvæmda, Friðjón Sigurðarson framkvæmdastjóri þróunar og Ragnheiður M. Ólafsdóttir sem lögfræðingur félagsins.

Guðjón Auðunsson, stjórnarformaður Landsbyggðar, segir ráðninguna styrkja félagið á þeirri vegferð sem fram undan er.

„Við erum afar ánægð að fá jafn öfluga og reynda sérfræðinga til liðs við okkur. Þekking þeirra og reynsla styður vel við þá hugsun sem liggur að baki verkefnum okkar – að umbreyta fasteignum og bæjarkjörnum með það að markmiði að auka verðmæti þeirra, efla samfélög og bæta lífsgæði.“

Andri Þór Arinbjörnsson, nýr framkvæmdastjóri framkvæmda, er byggingartæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði hjá Reitum fasteignafélagi á árunum 2011–2022, lengst af sem framkvæmdastjóri eignaumsýslusviðs, og var framkvæmdastjóri J.E Skjanna byggingaverktaka árin 2023–2024.

Friðjón Sigurðarson, sem tekur við stöðu framkvæmdastjóra þróunar, er verkfræðingur með M.Sc. í stjórnun framkvæmda frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hann hefur áratuga reynslu af þróun og rekstri fasteigna og starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri þróunar hjá Reitum fasteignafélagi á árunum 2013–2024.

Ragnheiður M. Ólafsdóttir, nýr lögfræðingur Landsbyggðar, útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1998 og hefur verið hæstaréttarlögmaður frá 2007. Hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra lögfræðisviðs hjá Reitum fasteignafélagi á árunum 2014-2024 en áður var hún lögmaður og eigandi á lögmannsstofunni LEX.

Þau þrjú mynda framkvæmdastjórn Landsbyggðar ásamt Vigni Guðjónssyni sem hefur starfað hjá félaginu undanfarin ár.