Alfa hf. skilaði 274 milljóna króna hagnaði á árinu 2024, sem er um helmingi minni af­koma en árið áður þegar hagnaður félagsins nam 585 milljónum króna.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 98,9 milljónir króna í arð.

Helstu skýringar á af­komu ársins eru jákvæð áhrif frá hlut­deildar­félögum, gengis­hagnaður verðbréfa og vaxta­tekjur, á meðan rekstrar­kostnaður félagsins hélst hóf­legur.

Félagið er í eigu Einars Sveins­sonar og dánar­búi Bene­dikts Sveins­sonar og fjöl­skyldu þeirra.

Tékkland og Kynnisferðir stærstu eignir

Alfa hf. á 95 pró­senta hlut í dóttur­félaginu Tékk­land bif­reiða­skoðun ehf. sem skilaði 41,9 milljóna króna hagnaði á árinu.

Bók­fært virði félagsins var 286,6 milljónir króna í árs­lok, saman­borið við 244,7 milljónir í lok árs 2023. Stjórn Alfa hf. hefur til­kynnt að fyrir­hugað sé að selja þennan eignar­hlut á árinu 2025.

Stærsta eign Alfa hf. er hins vegar 44,15 pró­senta hlut­deild í Kynnis­ferðum hf., sem skilaði félaginu 217,7 milljóna króna hagnaði árið 2024.

Bók­fært virði eignarinnar í Kynnis­ferðum var 3.175 milljónir króna í árs­lok, sem er 40 milljónum hærra en árið áður. Félagið færir hlut­deild í af­komu Kynnis­ferða í bundið eigið fé í samræmi við hlut­deildarað­ferð.

Alfa hf. heldur áfram að dreifa eigna­safni sínu vítt. Bók­fært virði eignar­hluta í skráðum félögum nam 121 milljón króna í árs­lok, saman­borið við 120 milljónir árið áður.

Safnið saman­stendur meðal annars af hlutum í Arion banka, Kviku, Sjóvá, Eim­skip, Festi, Símanum og Al­vot­ech, auk er­lendra stór­fyrir­tækja á borð við Micros­oft, Novo Nor­disk og Colop­last.

Eignir félagsins í verðbréfa­sjóðum og skulda­bréfum námu 141 milljón króna í árs­lok, sem er 23 milljónum meira en árið 2023.

Eigið fé Alfa hf. hækkaði í 3.795 milljónir króna í árs­lok 2024, úr 3.621 milljón árið áður.

„Annað bundið eigið fé“ jókst í 1.454 milljónir en óráð­stafað eigið fé lækkaði í 2.217 milljónir, aðal­lega vegna arð­greiðslna.

Félagið átti 69 milljónir í hand­bæru fé í árs­lok, saman­borið við einungis 1,4 milljónir í árs­lok 2023, en skuldir félagsins námu aðeins 400 þúsund krónum.