Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, tapaði rúmlega 1,1 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 1,2 milljarða tap á sama tímabili í fyrra. Hótelfélagið birti árshlutareikning í dag.
Rekstrartekjur Íslandshótela drógust saman um 3,2% milli ára og námu 6,5 milljörðum króna á fyrri árshelmingi.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 689 milljónum, samanborið við 735 milljónir samanborið við 735 milljónir á sama tímabili í fyrra. EBIT afkoma félagsins var neikvæð um 263 milljónir króna.
Í skýrslu stjórnar er bent á að á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 komu 955 þúsund ferðamenn til landsins, sem er lítillega færri en á sama tímabili árið áður þegar þeir voru 963 þúsund. Þetta jafngildi samdrætti um tæplega 1% milli ára.
„Mestu áhrifin á þennan samdrátt má rekja til fyrstu þriggja mánaða ársins, þegar fjöldi ferðamanna var rúmlega 9% lægri en á sama tímabili árið 2024. Þessi þróun hafði neikvæð áhrif á rekstur félagsins á fyrsta ársfjórðungi.“
Jafnframt segir stjórnin að gengi íslensku krónunnar hafi haft áhrif á rekstur og markaðsumhverfi á árinu. Sterkt gengi krónunnar dragi úr samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 65,3 milljarða króna í lok júní og eigið fé var um 24,6 milljarðar.
„Fyrri hluti ársins markaðist af færri ferðamönnum og auknum rekstrarkostnaði, en horfur fyrir síðari hluta ársins eru jákvæðar. Við sjáum greinilegan viðsnúning í júlí og ágúst með auknum tekjum samhliða fjölgun ferðamanna,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela hf.