12 ára gamall Suðurkóreskur drengur, Kwon Joon, hefur vakið athygli fyrir árangur sinn í hlutabréfaviðskiptum, en pilturinn hefur hagnast um 43% frá því hann hóf að fjárfesta á hlutabréfamarkaði í apríl á síðasta ári.
Í viðtali við Reuters segist Kwon hafa suðað í móður sinni um að fá að opna vörslureikning til að fjárfesta sparnað sinn í hlutabréfum eftir að kóreska hlutabréfavísitalan KOSPI fór að sýna batamerki eftir mestu niðursveiflu hennar í áratug. Segist Kwon hafa fengið áhugann eftir að sérfræðingur nokkur sem hann sá í sjónvarpinu sagði batamerkin fela í sér fjárfestingartækifæri.
Sparnaður Kwon nam 25 milljónum suðurkóreskra vonna, eða sem nemur tæpum 3 milljónum íslenskra króna. Hann segir hinn árangursríka virðisfjárfesti Warren Buffett vera helstu fyrirmynd sína og að hann leggi áherslu á að fjárfesta til langs tíma, 10 til 20 ár í senn.
Hlutabréfaviðskipti barna stóraukist
Kwon er ekki einsdæmi um svo ungan fjárfesti í Suður-Kóreu, töluvert er um að fjárfestar þar í landi séu á táningsaldri eða jafnvel yngri. Þannig eru börn skráð fyrir um 215 þúsund vörslureikningum þar í landi, eða um 5% allra vörslureikninga einstaklinga.
Mikil aukning hefur verið í hlutabréfaviðskiptum barna undanfarið ár en um 70% fyrrgreindra vörslureikninga barna voru stofnaðir í janúar 2020 eða síðar. Þessi aukni fjárfestingaáhugi barna og ungmenna er talinn endurspegla erfiðan vinnumarkað þar í landi, þar sem takmörkuð tækifæri bjóðast ungu fólki að námi loknu.