Mandólín hf., fjárfestingafélag sem heldur utan um eignarhlut íslenskra fjárfesta í Mariott Edition hótelinu við hlið Hörpu, hefur verið fært niður um 17% í ársreikningi Almenna lífeyrissjóðsins.
Sjóðurinn greiddi rúmlega 307 milljónir króna fyrir hlutinn, sem hefur verið færður niður í 254 milljónir króna árið 2021. Þannig hefur rúmlega 50 milljóna króna matslækkun orðið á 6,2% hlut sjóðsins í félaginu.
Mandólín er í eigu sjö íslenskra fjárfesta, þar á meðal Almenna lífeyrissjóðsins. SÍA III slhf., sjóður rekinn af verðbréfafyrirtækinu Stefni, á 49,9% hlut. Félögin Stormtré ehf., sem er í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Snæból ehf., í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, eiga hvor sinn 12,5% hlut.
Þá á Vitinn Reykjavík ehf. 9,4% hlut, en umrætt félag er 67% í eigu Vörðu Capital og eftirstandandi 33% eru í eigu ótilgreindra erlendra aðila. Festa lífeyrissjóður á 5,4% hlut og Feier ehf. 4,06% hlut., en Feier er í jafnri eigu hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg.