Rekstur RARIK samstæðunnar gekk ágætlega á árinu 2021, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Ekki hafi verið eins mikið um tjón á dreifikerfinu vegna veðurs eins og verið hafði tvö árin þar á undan og flæði raforku um dreifikerfi samstæðunnar hafi aukist frá fyrra ári. Hins vegar hafi orkusala dótturfélagsins Orkusölunnar minnkað, bæði vegna vaxandi samkeppni, en einnig vegna minni eigin framleiðslu.
„ Heildarfjárfesting RARIK árið 2021 í endurnýjun og aukningu stofn- og dreifikerfisins nam 4,3 milljörðum króna sem er svipað og árið á undan. Þar af var kostnaður við að endurnýja loftlínukerfi í dreifbýli með jarðstrengjum og jarðspennistöðvum um 1,7 milljarður króna og kostnaður við nýjar heimtaugar og til að mæta auknu álagi rúmar 800 milljónir króna. Fjárfestingar í dreifikerfi raforku voru minni en árið áður, en meiri en í langtímaáætlunum vegna flýtiverkefna sem studd eru af stjórnvöldum. Fjárfestingar í stofnkerfi voru minni en gert var ráð fyrir í áætlunum vegna tafa við leyfisveitingar og afgreiðslu á erlendu efni. Fjárfest var í hitaveitum í samræmi við áætlanir,“ segir í fréttatilkynningu.
Þar segir jafnframt að afkoma RARIK fyrir fjármagnsliði hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en fjármagnsliðir hærri. Rekstrarhagnaður ársins 2021 var 2,1 milljarðar króna sem er tæp 13% af veltu ársins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var um 34% sem hlutfall af veltu, eða 5,6 milljarðar króna. Sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 eru sögð hafa haft talsverð áhrif á skipulag vinnu en fjárhaglegu áhrifin hafi ekki verið mikil.
Heildareignir RARIK í lok árs 2021 námu tæpum 83.5 milljörðum króna og jukust um rúma 4,6 milljarða á milli ára. Heildarskuldir námu 29,8 milljörðum króna og hækkuðu um tæpar 700 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var rúmir 53,6 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 64,3% samanborið við 63,1% í árslok 2020.
Á aðalfundi var samþykkt að greiða 310 milljónir króna í arð til Ríkissjóðs Íslands, sem er eigandi RARIK, vegna ársins 2020. Á fundinum var stjórn félagsins einnig kjörinn en hana skipa: Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Thomas Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.