Hugbúnaðarfyrirtækið DecideAct, sem Bjarni Snæbjörn Jónsson stofnaði ásamt tveimur öðrum, lauk í sumar hlutafjáraukningu að andvirði 14,8 milljóna danskra króna, eða sem nemur tæplega 300 milljónum íslenskra króna. Þar lögðu einkafjárfestar, meðal annars stjórnarformaður félagsins, til aukið fjármagn.
Bjarni hefur lýst hugbúnaði DecideAct sem einskonar bókhaldi fyrir stefnu og markmið félaga. Félagið var skráð í dönsku kauphöllina undir lok síðasta árs. Í lok júní voru tekjur félagsins af sölu 5,55 milljónir danskra króna, sem nemur 58% af markmiði félagsins fyrir árið 2021.
Fjármögnuninni er ætlað að stuðla að auknum vexti félagsins á næstu tveimur árum og styðja frekar við þá framtíðarsýn félagsins að verða leiðandi á sviði hugbúnaðarlausna sem auðvelda framkvæmd stefnu og innleiðingu markmiða.