Hugbúnaðarfyrirtækið DecideAct hefur nýlega verið skráð í dönsku kauphöllina og var sexföld eftirspurn í frumútboði félagsins. Bjarni Snæbjörn Jónsson er einn af þremur stofnendum DecideAct. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og hefur síðan þá verið að þróa hugbúnað sem auðvelda á fyrirtækjum að halda utan um stefnu og markmið þeirra. Einskonar „bókhald fyrir stefnu og markmið félaga,“ að sögn Bjarna.

Um er að ræða skýjalausn sem getur tengst innrakerfi fyrirtækja. Kerfið heldur utan um framvindu og stefnu fyrirtækja og reynist því einkum vel fyrir stjórnendur. Áætluð velta DecideAct á þessu ári er 150-200 milljónir króna og gerir félagið ráð fyrir að tvöfalda veltu sína árlega næstu tvö árin. Tekjumódel fyrirtækisins gengur út á áskriftarþjónustu.

Að sögn Bjarna var talið að markaðsaðstæður væru hagfelldar fyrir félagið að vera skráð á hlutabréfamarkað. Fjármagnið verður nýtt í markaðssókn og frekari þróun á hugbúnaði félagsins en alls var safnað 18,5 milljónum danskra króna, andvirði 387 milljóna króna. Þar af söfnuðust 4,6 milljónir danskra króna í forskráningu en tæplega tólf milljónir á almennum markaði. Hægt var að skrá sig í gegnum kauphöll Danmerkur sem og kauphöll Svíþjóðar en alls bárust tilboð fyrir um 1.500 milljónir króna frá þrjú þúsund fjárfestum.

Færa út kvíarnar

Um áramótin er gert ráð fyrir að alls tólf manns starfi hjá DecideAct. Teymið er alþjóðlegt og hefur verið það frá upphafi, en tveir starfsmenn eru búsettir á Íslandi, tveir á Spáni, einn í Kanada, einn í Bretlandi, einn í Bandaríkjunum og einn starfsmaður er staðsettur í Þýskalandi fyrir utan þá starfsmenn sem eru í Danmörku. Eftir hlutfjárútboðið eiga upphaflegir stofnendur félagsins, téður Bjarni auk tveggja Dana, enn um 40% af hlutafé félagsins.

Bjarni segir að DecideAct hafi hingað til unnið náið með fáum viðskiptavinum. Félagið hafi verið í miklu þróunarferli á undanförnum árum en hyggist hins vegar núna stefna á markaðssókn á núverandi markaðssvæðum. Stærstu markaðir félagsins eru í Danmörku, Kanada og á Íslandi en ásamt þeim löndum er félagið starfrækt á hinum Norðurlöndunum, Þýskalandi og Frakklandi. Á meðal íslenskra fyrirtækja sem DecideAct hefur verið í samstarfi við má nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Bláa lónið og Samkaup.