Hluta­bréfa­verð líf­tækni­lyfja­fyrir­tækisins hefur hækkað um 23% í apríl­mánuði og hefur gengið farið úr 1.620 krónum í 1.995 krónur eftir við­skipti dagsins.

Um 600 milljón króna velta var með gengi fé­lagsins í dag og fór gengið upp um tæp 4%. Hluta­bréf í fyrir­tækinu lækkuðu tölu­vert í mars­mánuði og fóru úr 2.180 krónum í 1.620 krónur sem sam­svarar um 26% lækkun.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech byrjaði að hækka undir lok síðasta árs en rauk síðan upp í janúar og febrúar þegar von var á niður­stöðu út­tektar Lyfja- og mat­væla­eftir­lits Banda­ríkjanna (FDA) á fram­leiðslu­stöðu fyrir­tækisins.

Þann 26. febrúar gekk Al­vot­ech að til­boði frá hópi fag­fjár­festa í al­mennra hluta­bréfa í fé­laginu að verð­mæti um 22,8 milljarðar króna á genginu 2.250 krónur á hlut. Dagsloka­gengi Al­vot­ech eftir við­skiptin var 2.450 krónur og hafði þá aldrei verið hærra.

Gengið lækkaði nær stöðugt síðan þá þangað til í apríl. Í síðustu viku kynnti fyrir­tækið lang­tíma sölu- og dreifingar­samning í Banda­ríkjunum líf­tækni­lyfja­hlið­stæðu Al­vot­ech í háum styrk með út­skipti­leika við Humira.

Hluta­bréfa­verð Sýnar lækkaði um 4% í við­skiptum dagsins en fjar­skipta- og fjöl­miðla­fé­lagið sendi frá sér nei­kvæða af­komu­við­vörun eftir lokun markaða á mið­viku­daginn.

Á­ætlað er að rekstrar­hagnaður sam­stæðunnar á fyrsta fjórðungi verði um 120 milljónir saman­borið við 428 milljónir á sama tíma­bili í fyrra.

Hluta­bréfa­verð fjár­festinga­fé­lagsins Skeljar lækkaði síðan um 2% í afar lítilli veltu og var dagsloka­gengið 16,4 krónur. Fjár­festinga­fé­lagið greindi frá af­komu rekstrar­fé­laga í sinni eigu fyrir opnun markaða í morgun en af­koma þeirra var um­fram á­ætlanir.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 lækkaði um 0,01% og var heildar­velta á markaði 2,4 milljarðar.