Framtakssjóðurinn Umbreyting II, í rekstri hjá Alfa Framtaki, keypti þremur hótelfélögum fyrir 2 milljarða króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi AU 23 ehf. sem heldur utan um fjárfestingu sjóðsins í hótelum.

Sjóðurinn keypti allt hlutafé í Hótel Höfn, sem inniheldur 68 herbergi, og 28 herbergja hótelið Hótel Umi á Suðurlandi. Auk þess keypti sjóðurinn helmingshlut í Hótel Hamri við golfvöllinn í Borgarnesi.

„Sjóðurinn er með fleiri hótelverkefni til skoðunar en Alfa Framtak telur langtímahorfur í ferðaþjónustunni góðar,“ segir í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í kjölfar þriðju hótelfjárfestingarinnar í fyrra.

„Ferðaþjónusta er undirstöðu atvinnugrein á Íslandi sem hefur einnig þá sérstöðu að skapa fjölbreytt bein og afleidd störf víðsvegar um Ísland. Að mati Alfa Framtaks eru langtímahorfur góðar og þarf atvinnugreinin á fjárfestingu að halda til þess að geta annast þá miklu spurn sem er eftir því að heimsækja landið okkar.“

Innherji greindi nýverið frá því að Alfa Framtak væri meðal þeirra sem boðið hafa í 35% hlut Landsbankans í Keahótelum. Landsbankinn setti þriðjungshlut sinn í hótelkeðjunni í söluferli í lok nóvember síðastliðnum.

Umbreyting II er 15 milljarða króna framtakssjóður, sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða. Auk framangreindra hótela hefur sjóðurinn fjárfest í Origo, Thor Ice Chilling Solutions og Reykjafelli.

Sem fyrr segir heldur félagið AU 23 utan um hóteleignir sjóðsins. Hlutafé AU 23 ehf. var aukið um rúmlega 1,9 milljarða króna og félagið tók lán að fjárhæð 399 milljónir króna sem er á gjalddaga í ár, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.