Heildarfjöldi farþega Icelandair var 307 þúsund í apríl, eða um 4% fleiri en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair en félagið hefur flutt meira en eina milljón farþega það sem af er ári.

Fram kemur að í mánuðinum voru 27% farþega á leið til landsins, 17% frá landinu, 49% voru tengifarþegar og 7% ferðuðust innanlands.

„Þetta er heilbrigður vöxtur farþega en fækkun farþega til og frá landinu í mánuðinum skýrist af því að páskarnir voru í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Eftirspurn í tengiflugi heldur áfram að vera sterk og næstum helmingur farþega okkar voru tengifarþegar, samanborið við 40% í fyrra,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Þá kemur einnig fram að framboð hafi aukist um 11% frá apríl á síðasta ári og farþegaflutningar mældir í tekjufarþegakílómetrum hafi aukist um 8%. Sætanýting var 81% og stundvísi var 88,3%, eða 7,8 prósentustigum hærri en í apríl 2023.

Þann 1. maí hóf Icelandair einnig áætlunarflug til Færeyja og síðar í mánuðinum verður flogið til Pittsburgh og Halifax.