Reiknistofa bankanna hefur samið við netöryggisfyrirtækið Defend Iceland um aðgang að hugbúnaði villuveiðigáttar fyrirtækisins.

Með notkun villuveiðigáttarinnar nýtir Reiknistofa bankanna nýjustu aðferðir í netöryggi til að tryggja öryggi innviða fjármálakerfisins.

„Í því umhverfi sem við búum í með stöðugri aukningu í þróuðum netárásum þurfum við að vera mjög vakandi yfir þeim aðferðum sem hægt er að beita til þess að bæta netöryggi í okkar umhverfi. Samstarf okkar við Defend Iceland styrkir okkur á þessari vegferð og veitir okkur dýrmæta innsýn í nýjungar og bestu starfsaðferðir til þess að efla netöryggi,“ segir Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna.

Í villuveiðigátt Defend Iceland eru aðferðir tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa hermdar til að leita með markvissum hætti að veikleikum í upplýsingatæknikerfum notenda kerfisins, í því augnamiði að lagfæra þá áður en tölvuglæpamenn nýta þá til að brjótast inn og ná stjórn á viðkomandi kerfum.

„Netárásum skipulagðra glæpahópa fjölgar hratt og því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja varnirnar. Við hjá Defend Iceland höfum lagt áherslu á mikilvægi forvirkra netöryggisráðstafana og þá sérstaklega þegar kemur að krítískum innviðum samfélagsins,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, stjórnandi viðskiptaþróunar hjá Defend Iceland.