Hæstiréttur sýknaði í dag íslenska ríkið og bandarísku flugvélaleiguna ALC af kröfu upp á 2,3 milljarða króna auk dráttarvaxta vegna deilna um kyrrsetningu Isavia á Airbus-þotu í eigu ALC gegn skuldum flugfélagsins Wow air árið 2019.

Isavia þarf að greiða ALC bætur vegna ólögmætrar stöðvunar farþegaþotunnar frá 6. maí til 17. júlí árið 2019. Dómurinn tekur ekki afstöðu til fjárhæðarinnar og er það álitamál óútkljáð.

Isavia var einnig dæmt til að greiða ALC 3 milljónir króna vegna reksturs málsins á öllum dómstigum ásamt því að greiða ríkinu 1 milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti. Isavia var þó sýknað af öðrum kröfum ALC.

Forsaga málsins er að Isavia kyrrsetti Airbus A321 flugvél, sem Wow air var með á leigu af ALC, við gjaldþrot flugfélagsins í mars 2019 og heimtaði að ALC myndi greiða allar skuldir Wow vegna ógreiddra gjaldfallina notendagjalda sem námu um 2 milljörðum króna. ALC taldi sig ekki bera ábyrgð fyrir öllum skuldum Wow og krafðist þess að fá þotuna afhenta. Deilan fór fyrir héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt.

Flugvélaleigan varð að ósk sinni í júlí 2019 eftir að dómari við Héraðsdóm Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að ALC ætti að fá þotuna afhenta eftir að hafa greitt allar skuldir sem hvíldu á vélinni sjálfri. Þar að auki sá hann ekki ástæðu til að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og var þotunni flogið úr landi síðar í mánuðinum.

Samkomulag Isavia og Wow ólögmætt

Í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að Isavia hafi verið heimilt að semja við Wow air á sínum tíma um svigrúm til greiðslu gjaldfallinna krafna.

Heimild Isavia gat hins vegar ekki staðið til að semja um að eign þriðja manns stæði sem trygging fyrir greiðslu umrædds kostnaðar „en sú varð raunin með þeirri fyrirætlan að ein vél á flugrekstrarleyfi félagsins skyldi ávallt vera til reiðu á Keflavíkurflugvelli sem andlag stöðvunarréttar“.

„Tilviljun ein réð því síðan að á umræddum tíma var þota gagnáfrýjanda TF-GPA stödd á flugvellinum og varð þá andlag beitingar stöðvunarréttarins.

Hvað sem leið þeirri þekkingu sem gagnáfrýjandi hafði á því, sbr. einstök ákvæði leigusamnings gagnáfrýjanda og WOW air hf., að mögulega gæti komið til stöðvunar loftfara hans á flugvöllum vegna skulda sem leigutaki stofnaði til við rekstraraðila þeirra, fólst ekki í því bein vitneskja, hvað þá samþykki fyrir ráðstöfun af þessu tagi. Um hana var hann heldur ekki upplýstur fyrr en eftir að bú WOW air hf. var tekið til gjaldþrotaskipta og stöðvunarheimild hafði þegar verið beitt“.

Af niðurstöðum í aðalsök leiði að stöðvunarheimild náði aðeins til þeirra gjalda sem stofnað hafði verið sérstaklega til vegna viðkomandi loftfars, samanber greiðslu þá sem ALC innti af hendi 6. maí 2019.

„Samkomulag það sem [Isavia] byggði aðgerðir sínar á var því ekki lögmætt og þess utan verður það virt honum til sakar að standa að málum með þessum hætti og knýja þannig á um greiðslu á öllum gjaldföllnum kröfum sínum á hendur WOW air hf. án þess að til grundvallar lægi gildur löggerningur eða lagaheimild.“

Hæstiréttur segir að á því tjóni sem af því leiddi ber Isavia ábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og ber því að bæta ALC það tjón sem hann varð fyrir á tímabilinu frá 6. maí til 18. júlí 2019.

Isavia höfðaði mál á hendur ALC og íslenska ríkinu í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness þar sem Isavia leit svo á að með úrskurðinum hafði félagið verið svipt tryggingu fyrir tveggja milljarða skuld og höfðaði því skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu og flugvélaleigunni ALC.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í desember 2021 um að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness hefði hafi verið rangur og að meðal annars hafi verið litið fram hjá rökstuðningi í úrskurði Landsréttar í sama máli. Dómarinn hafi komist að rangri niðurstöðu og sýnt af sér saknæma háttsemi þegar hann féllst ekki á kröfu um að málskot myndi fresta aðfarargerð á grundvelli úrskurðarins.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkinu og ALC að greiða Isavia sameiginlega um 2,5 milljarða króna. Dómnum var áfrýjað til Landsréttar sem sýknaði ALC og íslenska ríkið af kröfum Isavia, fyrir rúmu ári síðan.

Í dómi Landsréttar segir að lagaákvæðið sem heimilar að för flugvélar sé aftrað sé mjög opið og víðtækt. Ákvæðið væri verulega íþyngjandi og við túlkun þess bæri að líta til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Því verði við skýringu þess að beita þrengjandi lögskýringu eins og héraðsdómarinn gerði í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. Dómarar Landsréttar féllust á að heimilt hefði verið að aftra brottför vélarinnar frá Keflavíkurflugvelli meðan gjöld tengd þeirra flugvél væru ógreidd. Ekki hefði hins vegar mátt nota hana sem tryggingu fyrir gjöldum af öðrum flugvélum sem Wow hafði á leigu.

Fréttin hefur verið uppfærð.