Arion banki hefur sagt upp samningi sínum við alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Arion hefur ákveðið að nýta þjónustu frá aðeins einu alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki, Moody‘s Ratings.

„Ákvörðunin kemur í kjölfar heildarendurskoðunar á þörfum bankans á þessu sviði,“ segir í tilkynningunni. Fram kemur að Arion hafi verið með lánshæfismat frá bæði S&P og Moody‘s síðastliðin tvö ár.

Á markaðsdegi Arion banka þann 1. mars síðastliðinn upplýsti bankinn að hann hafi verið með fyrirkomulag lánshæfismats sem bankinn kaupir af alþjóðlegum matsfyrirtækjum í endurskoðun.

Meðal þeirra þátta sem Arion banki horfði til við endurskoðun á fyrirkomulagi lánshæfismats var fyrirkomulag lánshæfismats sambærilegra banka á Norðurlöndum, hvernig aðferðfræði við mat á lánshæfismati styddi við framtíðarstefnu Arion banka í banka- og tryggingarrekstri og kröfu fjárfesta og annarra haghafa um vandað og viðurkennt lánshæfismat.

„Niðurstaða endurskoðunar bankans sem unnin var með aðstoð erlendra ráðgjafa var að eitt lánshæfismat væri hæfilegt til að mæta kröfum bankans og fjárfesta og að heppilegt væri að viðhalda lánshæfismati frá Moody‘s.“

Lánshæfismatseinkunn Arion banka hjá Moody's er A3 með stöðugum horfum. Þá er lánshæfismatseinkunn Arion banka hjá S&P er BBB+ með stöðugum horfum en lánshæfismatið var nýlega hækkað úr BBB.

Óánægja með neikvætt mat S&P

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í ár hefur verið óánægja innan Arion banka og meðal stórra hluthafa með S&P Global Ratings vegna sérstaks álags í mati á Arion banka sem tengist íslensku efnahagsumhverfi.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða sem er stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion, sagði í bréfi til hluthafa fjárfestingarfélagsins í febrúar að það hafi ollið vonbrigðum að S&P endurskoðaði ekki afstöðu sína.

„Segja má að helstu vonbrigði í rekstri Arion banka í fyrra hafi verið ótengd rekstrinum sem slíkum en S&P endurskoðaði ekki afstöðu sína til sérstaks álags í mati sínu á bankanum, sökum neikvæðrar skoðunar S&P á íslensku efnahagsumhverfi. Þetta leiðir til þess að Arion banka er sniðinn þröngur stakkur í því að koma umfram eigin fé til hluthafa í gegnum endurkaup. Þessi afstaða S&P vekur furðu enda íslenskir bankar með hvað mesta eigið fé sem um getur í rekstri banka í Evrópu og þótt víðar væri leitað,“ skrifaði Jón.

„Vonandi komast þessi mál því í eðlilegan farveg í mjög svo náinni framtíð svo bankinn geti rekið sig með eðlilegum hætti líkt og aðrir evrópskir bankar.