Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ákveðið að hækka verðtryggða breytilega vexti úr 3,79% í 4,14% frá og með 1. júní næstkomandi. Stjórn sjóðsins ákvað þetta á fundi á miðvikudaginn í þessari viku og segir að aðrir vextir haldist óbreyttir.

Greint var frá því fyrir viku síðan að Íslandsbanki hefði ákveðið að gera breytingar á vöxtum inn- og útlána en sú breyting tók gildi 22. apríl sl. Breytingar á vaxtakjörum innlánsreikninga sem falla undir lög um greiðsluþjónustu taka þá gildi eftir tvo mánuði.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Arion einnig að bankinn myndi lækka óverðtryggða fasta 3 ára íbúðalánavexti um 0,50 prósentustig niður í 8,95%. Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka hins vegar um 0,25 prósentustig og verða 4,04%.

Arion banki sagði jafnframt að innlánsvextir sem bundnir eru í 9 mánuði myndu lækka um 0,10 prósentustig og að vextir sem bundnir eru í 12 mánuði myndu lækka um 0,20 prósentustig.