Í dag eru 38 ár liðin frá því að slysið við sovéska kjarnorkuverið Chernobyl átti sér stað. Slysið var stærsta kjarnorkuslys fyrr og síðar og var talið vera einn af síðustu nöglum í líkkistu Sovétríkjanna.

Áætlaður kostnaður vegna slyssins er talinn vera rúmlega 235 milljarðar dala og spratt um mikil mótstaða við kjarnorkunotkun í kjölfarið. Blaðamaður Viðskiptablaðsins heimsótti kjarnorkuverið rúmum mánuði fyrir innrás Rússa í Úkraínu.

Chernobyl hefur um árabil verið vinsæll ferðamannastaður en í dag er svæðið að vísu lokað af öryggisástæðum. Að sögn ferðaþjónustufyrirtækisins er líklegasta skýringin sú að Chernobyl og borgin Pripyat liggja skammt frá landamærum Hvíta Rússlands en fyrirtækið vonast þó til að hægt verði að hleypa ferðamönnum inn á ný.

Slysið

Þann 26. apríl 1986 fór fram öryggistilraun við kjarnorkuverið sem hafði það markmið að kanna hvort túrbínur kjarnorkuversins gætu haldið áfram að dæla kælivökva ef rafmagnið myndi skyndilega slá út.

Slysið sem myndi eiga sér stað við þetta kjarnorkuver byrjaði í raun mörgum árum á undan. Leyniskjöl frá kommúnistaflokki Sovétríkjanna sem hafa verið gerð opinber sýndu að frá 1979 til 1986 höfðu yfirvöld margsinnis hunsað viðvaranir um hönnunargalla á kjarnorkuverinu.

Kjarnaofn 3 við kjarnorkuver Chernobyl liggur aðeins nokkrum metrum frá sprungusvæðinu.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Forseti kjarnorkuversins, Viktor Brjúkanov, vildi flýta fyrir byggingaraðgerðum á kjarnaofni 4 og koma honum í gang á undan áætlun. Ef það stæðist myndu hann og flokksmenn hans hagnast á verulegum bónusgreiðslum frá stjórnvöldum. Öryggi var ekki forgangsatriði.

Tilraunin fór þannig fram að starfsmenn byrjuðu á því að lækka orkuinntak versins niður í 25% en í stað þess að haldast þar hríðféll inntakið niður í 1%. Þegar reynt var síðan að hækka orkuinntakið á ný sveiflaðist það upp í 100% sem varð til þess að neyðarkerfi kjarnorkuversins eyðilagðist.

Stjórnklefi á kjarnaofn 4 var fljótlega rýmdur eftir sprenginuna.
© Samsett (SAMSETT)

Kjarnaofn 4 fékk ekki lengur þá kælingu sem hann þurfti og breyttist í tikkandi tímasprengju. Á einu tímabili hækkaði gufumagnið það mikið að járnstangir sem sátu efst á ofninum og vógu um eitt og hálft tonn byrjuðu að skoppa upp og niður.

Lausnin hjá starfsmönnum Chernobyl á þessum punkti var að ýta á AZ-5 takkann sem hafði verið komið fyrir sem nokkurs konar bilunaröryggi til að stöðva alla kjarnorkuframleiðslu. Vandamálið var hins vegar að stjórnstangir á slíkum RBMK-kjarnorkuverum voru byggðar með grafíttilfærsluhluta undir gleypiefni sem hannaðir voru til að auka kjarnorkuframleiðslu.

Minnisvarði til starfsmannsins Valery Khodemchuk, sem liggur látinn inni í veggnum sem skilur að kjarnaofn 3 og 4 eftir sprenginguna.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Með öðrum orðum í stað þess að stöðva alla kjarnorkuframleiðslu þá kveiktu starfsmenn í þræðinum sem á endanum myndi sprengja kjarnorkuverið sjálft. Stjórnstangirnar sprengdu sig í gegnum eitt þúsund tonna þak byggingarinnar, sem varð til þess að súrefni lak inn og blandaðist við bæði vetni og ofhitnað grafít.

Fundarherbergi í kjallara Chernobyl og gangurinn sem skilur að kjarnorkuverið og skrifstofuhúsnæðið.
© Samsett (SAMSETT)

Það var sú sprenging sem dreifði banvænni geislavirkni út í andrúmsloftið. Slysið við Chernobyl myndi reynast versta kjarnorkuslys mannkynssögunnar. Alls létust 31 við kjarnorkuverið sjálft og á næstu vikum, mánuðum og árum myndu fleiri þúsund manns deyja úr geislaeitrun.

Rýming Pripyat

Morguninn eftir að slysið átti sér stað enduðu margir íbúar á spítala í nærliggjandi borginni Pripyat sem kvörtuðu undan hausverkum, ælupestum og öðrum geislatengdum veikindum.

Klukkan 14:00 þann 27. apríl, eða rúmlega 36 klukkustundum eftir að sprengingin átti sér stað, var öllum íbúum í Pripyat og nærliggjandi bæjum skipað að yfirgefa heimili sín.

Þeim 56.000 íbúum sem fylltu rúturnar frá Kíev var sagt að brottflutningurinn myndi aðeins standa yfir í þrjá daga. Enginn þeirra vissi að þau myndu aldrei sjá heimili sín á ný.

Sundlaugin í miðbæ Pripyat var mjög vinsæl meðal íbúa fyrir slysið.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Það var ákveðið högg fyrir Sovétríkin að þurfa að rýma Pripyat en borgin var frábrugðin öllum öðrum borgum Sovétríkjanna á þeim tíma. Borgin var ekki aðeins byggð til að hýsa verkamennina við kjarnorkuverið, heldur átti hún að vera lýsandi dæmi um nýju Sovétríkin.

Fyrsta kaffihús Sovétríkjanna og fyrsta matvöruverslun Sovétríkjanna voru í Pripyat.
© Samsett (SAMSETT)

Pripyat var nútímaleg borg sem hýsti 50 þúsund íbúa sem upplifðu ákveðið lúxuslíf sem var ekki til í öðrum borgum. Þar var sundlaug, matvöruverslun og kaffihús. Það stóð einnig til að opna skemmtigarð í borginni 1. maí 1986, aðeins fjórum dögum eftir að slysið átti sér stað. Hins vegar varð aldrei neitt úr þeim áformum og í dag er þetta fræga ónotaða Parísarhjól eitt af kennileitum slyssins.

Innrás Rússa

Tveimur dögum eftir innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar 2022 var greint frá því að rússneski herinn hefði hertekið kjarnorkuverið og handsamað úkraínsku hermennina sem höfðu bækistöðvar þar.

Í byrjun mars sagði svo Rafael Grossi, forstöðumaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, að öryggisgögn bærust ekki lengur frá kjarnorkuverinu til stofnunarinnar. Grossi lýsti þá þungum áhyggjum af þeim 200 starfsmönnum sem höfðu verið í verinu frá því hertakan átti sér stað.

Nokkrum vikum eftir innrásina yfirgáfu rússneskir hermenn kjarnorkuverið en stjórna hins vegar enn kjarnorkuverinu við Zaporizhzhia, sem er það stærsta í Evrópu.

Fótboltavöllur Pripyat er í dag orðinn skógur.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)
Úkraínumenn hafa verið duglegir að selja slysið fyrir ferðamönnum.
© Helgi Steinar (Viðskiptablaðið)

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, tjáði sig um málið í tilefni af því að 38 ár væru liðin frá slysinu og sagði að rússneski herinn hefði haft kjarnorkuverið í 785 daga undir sínum snærum. Báðar hliðar saka hvor aðra reglulega um að ógna öryggi með því að drónaárásum í kringum verið.

„Það er ábyrgð alls heimsins að þrýsta á Rússa að tryggja að kjarnorkuverið í Zaporizhzhia verði frelsað og skilað aftur til Úkraínu. Það sama á við um öll úkraínsk kjarnorkuver sem þurfi nauðsynlega vernd frá árásum Rússa.“

Því miður fékk enginn að keyra þessa klessubíla í skemmtigarði Pripyat.
© epa (epa)