Hollenska bjórfyrirtækið Heineken hefur tilkynnt að það muni opna aftur 62 bari í Bretlandi sem búið var að loka. Þar að auki mun fyrirtækið fjárfesta um 39 milljónir punda í endurbætur á hundruðum veitingastaða víðs vegar um Bretlandseyjar.

Heineken rekur keðjuna Star Pubs í Bretlandi og segir í tilkynningu að fjárfesting fyrirtækisins muni koma til með að skapa meira en þúsund ný störf.

Bariðnaðurinn í Bretlandi varð fyrir miklu höggi þegar heimsfaraldur skall á en samkvæmt breska bjóra- og kráarfélaginu (BBPA) þá neyddust um 500 barir til að loka dyrum sínum milli 2021 og 2023. Star Pubs mun þá endurnýja um 600 af börum sínum, sem er um fjórðungur af þeim 2.400 börum sem keðjan hefur undir snærum sínum.

„Þar sem fleiri eru farnir að vinna heima og spara ferðalögin munu endurbætur okkar einblína á að breyta okkur gömlu krám í úrvals hverfabari fyrir heimamenn,“ segir í tilkynningu frá Heineken.

Fyrirtækið hefur undanfarin misseri staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum en snemma árið 2021 tilkynnti Heineken að það myndi segja upp rúmlega átta þúsund manns á heimsvísu. Innrásin í Úkraínu hafði þá einnig áhrif á orkukostnað, eldsneyti og fleira.