Hollenska bruggfyrirtækið Heineken segir að bjórsalan hafi verið mun meiri en búist var við á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða um 4,7% miðað við sama tíma í fyrra. Markaðsspár gerðu ráð fyrir 2,5% hækkun en meðalverð þess hækkaði um 6%.

Fréttamiðillinn WSJ greinir frá þessu en Heineken á meðal annars bjórtegundirnar Tiger, Desperados, Birra Moretti og Kingfisher Ultra.

Tekjur fyrirtækisins á nýliðnum ársfjórðungi námu 8,18 milljörðum evra, samanborið við 7,63% milljarða evra árið áður.

„Sala á öllum svæðum jókst og það sama má segja um tekjur. Við héldum líka áfram að sjá meiri afkomu sem jókst í takt við markaðsspár okkar. Við höldum áfram að líta á umhverfið sem krefjandi umhverfi hlaðið óvissu, en höldum líka einbeitingunni okkar,“ segir Dolf van den Brink, formaður Heineken.