Howard Schultz, fyrrum forstjóri Starbucks, segir að fyrirtækið þurfi að endurhugsa áherslur og laga starfsemi sína en kaffikeðjan skilaði slöku uppgjöri í síðustu viku. Í færslu á LinkedIn-síðu sinni skrifaði Schultz að keðjan þyrfti að bæta starfsemi sína í Bandaríkjunum.

Fréttamiðillinn WSJ greinir frá þessu en Starbucks hefur ekki viljað tjá sig um málið. Gagnrýni Schultz er einnig sjaldgæf en fyrrum forstjórar hafa yfirleitt tilhneigingu til að tjá sig ekki mikið um fyrrum vinnustaði.

„Kröfur veitingahúsanna ættu að snúast um upplifun viðskiptavina og í gegnum augu kaupmanns. Svarið liggur ekki í tölum og gögnum, heldur á veitingastaðnum sjálfum,“ skrifaði Schultz.

Laxman Narasimhan, núverandi forstjóri Starbucks, hefur gegnt hlutverkinu síðan í mars í fyrra en Schultz aðstoðaði hann meðal annars við að snúa við gengi fyrirtækisins. Hann viðurkenndi í síðustu viku að fyrirtækið væri ekki á réttri braut en að verið væri að bæta úr því.

„Við áttum erfiðan ársfjórðung. Við þurfum að gera betur og við munum gera betur. Þegar ég horfi fram á við er ég fullviss um að við munum finna réttu stefnuna,“ sagði Narasimhan í símtali til fjárfesta.