Thorsil ehf., félag sem stofnað var 2014 til að byggja og reka kísilmálmverksmiðju í Helguvík, tapaði 335 milljónum krónum í fyrra. Árið áður tapaði félagið 178 milljónum.

Eigið fé félagsins var neikvætt um 367 milljónir í lok síðasta árs. Í ársreikningi segir að félagið hafi gert ýmsa samninga um uppbyggingu verksmiðju og framleiðslu á kísilmálmum. Félaginu hafi þó ekki tekist að ljúka fjármögnun verkefnisins. Babb kom í bátinn er samningur um lóð og hafnaraðstöðu var ógiltur af hafnaryfirvöldum í Helguvík. Thorsil metur því aðra valkosti sína til framleiðslu á kísilmálmi ásamt því að vinna að langtímafjármögnun.

John Fenger er stjórnarformaður félagsins en hann á þriðjungshlut í Northsil sem á helmingshlut í Thorsil. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, á nærri fjórðungshlut í Northsil. Strokkur Silicon á þriðjungshlut í Thorsil en félagið er að meginþorra í eigu Harðar Jónssonar. Eyþór Laxdal Arnalds, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, á um 14% hlut í Strokki. Meðal annarra eigenda Thorsil eru Arctica Finance með 13% hlut og Arion banki 2%.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.