Epli og aðrir samstarfsaðilar við Foxway á Íslandi hafa skilað rúmlega 45 þúsund raftækjum til endurvinnslu eða -nýtingar frá árinu 2019. Um er að ræða raftæki á borð við síma, tölvur, spjaldtölvur og skjái.
Epli áætlar í tilkynningu að með þessu hafi sparast í það minnsta 2.000 tonn af koltvísýringi (CO2) sem samsvari losun af 850.000 lítrum af bensíni.
„Sem betur fer eru mjög margir söluaðilar á Íslandi að taka á móti notuðum tækjum og símum í hvaða ástandi sem er og þau endurnýtt þegar mögulegt er.“
Hjá Epli meta sérfræðingar tæki sem skilað eru inn, gera verðmat vegna uppítöku við kaup á nýju tæki og senda þau í kjölfarið í úrvinnslu hjá Foxway sem sérhæfir sig í að flokka og meta alla varahluti eins og unnt er og þannig endurnýta þá eða endurvinna.
Þau tæki eða íhlutir sem nýtast ekki eru brotin niður eftir efnum og endurunnin til að hægt sé að nýta öll hráefni eins og mögulegt er.
Fram kemur að 99% af öllum Mac tölvum sem skilað hefur verið til Epli voru endurnýttar og 1% þeirra endurunnar. Snjallsímar voru á sama tímabili 78% endurnýttir og 22% endurunnir.