Þrettán íslenskir lífeyrissjóðir hyggjast fjárfesta 4,5 milljörðum dala, eða um 580 milljörðum króna, í verkefnum sem tengjast hreinni orku og umhverfisvænum lausnum á næstu níu árum. Sjóðirnir hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) sem var formlega kynnt í morgun á lofslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fer nú fram í Glasgow í Skotlandi.

„Með yfirlýsingunni nú staðfesta íslensku sjóðirnir þrettán vilja til að stórauka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Þar er meðal annars horft til ákvæða Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í tilkynningu CIC.

Sjóðirnir sem taka þátt í verkefninu eru Almenni, Birta, Brú, Festa, Frjálsi, Gildi, Lífeyrissjóður bankamanna, LIVE, Lífsverk, LSR, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, SL og Stapi.

Stofnaðilar CIC eru danska umhverfis-, orku og veituráðuneytið, The Institutional Investors Group on Climate Change, Insurance & Pension Denmark (samtök 92 tryggingafélaga og lífeyrissjóða í Danmörku) og World Climate Foundation (samtök sem vinna að orkuskiptum og framþróun lágkolefnishagkerfisins). Árið 2019 skuldbittu danskir lífeyrissjóðir sig til að fjárfesta um 50 milljörðum dala, eða um 6.500 milljörðum króna, í grænum lausnum fram til ársins 2030.